150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um frumvarpið í þessari umræðu en ætla þó í öllum aðalatriðum að lýsa ánægju minni með það. Hér er verið að einfalda framkvæmd, stuðla að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþáttanna og vinna gegn óhóflegum hindrunum og óþarfa takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri. Um það snýst þetta frumvarp. Það er auðvitað verið að samræma samkeppnislöggjöfina við löggjöf annarra landa sem við erum í mestri samkeppni við og ég held að þetta muni bæta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Það er mjög sérstakt að hlusta á gagnrýnendur þessa frumvarps, m.a. hv. 7. þm. Reykv. n., Þorstein Víglundsson, þar sem menn halda því statt og stöðugt fram að verið sé að veikja Samkeppniseftirlitið á kostnað hagsmuna neytenda. Það er þannig, og kannski átta menn sig ekki allir á því, að hagsmunir neytenda og hagsmunir atvinnulífsins fara iðulega saman. Það er eins og margir trúi því hér að það að draga úr þessum hindrunum og einfalda framkvæmdina sé endilega á kostnað neytenda. Það er mikill misskilningur og fjarri lagi. Það er líka mjög merkilegt að hlusta á athugasemdir frá gagnrýnendum frumvarpsins, sem halda því einfaldlega fram að verið sé að veikja Samkeppniseftirlitið og allt sé á kostnað neytenda án þess að segja neitt í hverju það felst. Ég fékk engin dæmi um það hvernig það ætti að vera, menn halda því bara fram. Svo er líka merkilegt að það sama fólk og gagnrýnir þennan hluta frumvarpsins, þessi atriði frumvarpsins, hefur alla jafna engar áhyggjur af samkeppnismálum þegar ríkisvaldið eða lífeyrissjóðir standa í samkeppnisrekstri við aðra í atvinnulífinu. Þá skipta einhvern veginn allar samkeppnisreglur, öll samkeppnissjónarmið og meginreglur, engu máli.

Ég ætla að ljúka þessari stuttu ræðu á því að gagnrýna frumvarpið. Ég veit að hæstv. viðskiptaráðherra veit hvað ég er óánægður með í frumvarpinu og það er sú undarlega tilhögun að lægra sett stjórnvald, samkeppniseftirlit, geti krafist þess fyrir dómi að ógilda ákvörðun æðra setts stjórnvalds. Kann að vera að þetta sé ekki algert einsdæmi en það er alveg jafn fáránlegt fyrir það og ég skil ekki að einhverjum skuli yfir höfuð detta þetta í hug. Ég gæti skilið að menn myndu ákveða að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins væri endanleg ákvörðun, endastöð í stjórnsýslunni, og menn yrðu að fara með hana fyrir dóm. En það er ekki góð tilhögun að hafa æðra sett stjórnvald sem lægra sett stjórnvald þarf ekki að fara eftir og getur reynt að ógilda fyrir dómi. Ég þykist vita að mjög mikil andstaða hafi verið við það að taka af þessa málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins, og einhvern veginn látið að því liggja að verið væri að veikja það með þeim hætti. Það er af og frá. Það er reiknað með því að stjórnsýsluákvarðanir af þessu tagi sæti endurskoðun æðra setts stjórnvalds og þar við situr í endanlegri meðferð í stjórnsýslunni. Ég mun leggja til síðar að því verði breytt og þá annaðhvort í þann farveg að hætta með áfrýjunarnefnd æðra setts stjórnvalds eða að Samkeppniseftirlitið verði að sætta sig við niðurstöðu æðra setts stjórnvalds. Ég gat ekki lokið ræðunni án þess að finna eitthvað að, enda er manngerðin þannig.