150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur einhvern tímann verið sagt að þögnin sé ekki einhlít. Hún er kannski vandasöm heimild ef menn ætla að vinna með hana. Það er ekki margt sagt um þetta atriði í frumvarpinu, það er alveg hárrétt athugað hjá hv. þingmanni, en það er langt seilst um hurð til lokunnar að álykta, eins og hv. þingmaður gerir, að frumvarpið geri ekki ráð fyrir því að stjórn ráði og reki forstjóra.

Ég sagði í þessum ræðustól fyrir nokkrum mínútum að ég teldi að það myndi ekki spilla málinu þó að hnykkt yrði á því atriði í hinni þinglegu meðferð sem hlýtur að bíða málsins að aflokinni 1. umr. Sú ályktun sem hv. þingmaður dregur af þögn frumvarpsins um þetta, eða orðfæð, hvort sem menn vilja segja um þetta atriði, er á mörkunum að vera raunhæf, vil ég leyfa mér að segja. Hún er það bara ekki.

Þarna eru þættir sem gjarnan má ræða, svo sem fjöldi stjórnarmanna eins og borið hefur á góma. Eiga þeir að vera sjö eða önnur tala? Það getur farið eftir því hversu langt menn vilja ganga, til að mynda í átt að því að koma til móts við óskir einstakra fagstétta á heilbrigðissviði um fulltrúa í stjórninni o.s.frv. Árétting varðandi hlutverk stjórnar gagnvart því að ráða og reka forstjóra yrði að sjálfsögðu (Forseti hringir.) ekki málinu til tjóns heldur gagns.

(Forseti (BHar): Forseti minnir alla hv. þingmenn á að virða tímamörkin sem eru tvær mínútur í andsvörum þegar einn eða tveir fara í andsvör.)