150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:23]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir erindi hans þar sem hann kynnti þetta frumvarp þar sem ég er meðflutningsmaður ásamt níu öðrum hv. þingmönnum úr tveimur flokkum. Landspítalinn er fjölmennasti vinnustaður landsins og einnig útgjaldamesta stofnun íslenska ríkisins. Því er mikilvægt að vanda alla umgjörð um stofnunina. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að yfir stofnunina verði sett sjö manna stjórn, skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn. Þetta verði sérfræðingar á sviði heilbrigðisvísinda, rekstrar, fjármála og stefnumótunar eða hafi sérþekkingu á starfsemi eða rekstri sjúkrahúsa. Þannig er gert ráð fyrir því að í stjórnina veljist menn sem hafa rekstrarlega þekkingu annars vegar og aðilar sem einnig hafa faglega þekkingu á sviði heilbrigðisvísinda, sem ég tel vera mjög mikilvægt. Hvort í stjórninni séu sjö eða fimm menn er algjört aukaatriði að mínu mati. Ég geri ráð fyrir því að þegar málið fer fyrir nefndina verði svona hlutir ræddir og komist að niðurstöðu um hver sé æskilegasta stærð af slíkri stjórn. Þetta er algjört aukaatriði en er samt mikilvægt og ég vil minna á að það er mikilvægt, vegna fagstéttanna, sem eru margar innan spítalans, að í stjórninni séu aðilar sem hafi víðtæka þekkingu á hinum ýmsu sviðum. Þess vegna er til að mynda ekki æskilegt að stjórnin sé mjög fámenn, kannski þriggja manna. En þetta verður tekið fyrir í nefnd og rætt þar.

Annað sem ég vil nefna, af því að ég ætla alls ekki að lengja þessa umræðu, er að slík stjórn þekkist í öllum nágrannaríkjum okkar en ekki hér. Með tilliti til rekstrarvanda spítalans undanfarin mörg ár, ekki einungis rekstrarvanda heldur einnig vanda að öðru leyti, eins og á bráðamóttöku og þann margumtalaða vanda sem menn vilja kalla fráflæðisvanda, þarf auðvitað að leysa þetta mál. Ein leið til þess, sérstaklega varðandi útgjaldahlið stofnunarinnar, er að skipa stjórn þarna yfir. Ég velti einnig fyrir mér að forstjóri og stjórnin þurfa auðvitað að hafa vald til að beita áhrifum sínum í rekstri spítalans. Ég vænti þess að í nefndinni verði þessir tveir hlutir, sem ég hef nefnt hér og hafa verið til umræðu á undan, ræddir til hlítar í nefndinni og komist að niðurstöðu.

Ég vil einnig taka undir með framsögumanni að það er eitt allra stærsta skipulagsmál í íslenska heilbrigðiskerfinu að koma þessari stofnun undir styrka stjórn, faglega og rekstrarlega.