150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

flensufaraldur og fátækt.

[10:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Covid-19 veiran er núna að ná hámarki en á sama tíma er virkilega slæm flensa í gangi, flensa sem hefur einhvern veginn horfið og enginn talar um, sú versta flensa sem ég hef orðið vitni að og ekki er ég nú unglamb. Þessi flensa ræðst illa á öndunarfæri fólks og veldur því að fólk er með hósta og er allt að því að kafna í þrjá mánuði eftir að hafa fengið hana. Ekkert er rætt um þetta. Og ég spyr mig: Fólk sem er með þessa flensu í hámarki, í hversu mikilli áhættu er það gagnvart Covid-19 veirunni? Eru einhverjar ráðstafanir í gangi til að kortleggja þá sem eru núna með þessa slæmu flensu og verja þá fyrir Covid-19 veirunni?

Síðan er annað sem hefur komið á daginn. Það eru 28.000–35.000 manns sem lifa í fátækt og þar af eru 10.000 börn, þar af 3.000 börn í sárafátækt. Við erum að tala um hóp fólks sem þarf að neita sér um hollt fæði, heilbrigðisþjónustu og lyf og býr ekki við mannsæmandi húsakost. Þetta er viðkvæmasta fólkið og þetta er fólkið sem því miður er að tapa allt að tíu árum af ævi sinni vegna lélegs fæðis og þar af leiðandi er þetta líka fólkið sem hefur ekki efni á því að kaupa spritt, þetta er fólkið sem hefur ekki efni á því að fara í einangrun. Það á ekki matarbirgðir. Hvað er verið að gera fyrir þetta fólk? Er verið að hjálpa því? Er verið að kortleggja þörfina? Er séð til þess að þeir sem eru verst staddir og sérstaklega þeir sem eru með börn geti mætt því að þurfa að fara í einangrun? Vegna lélegs fæðis, lélegs húsnæðis sem þetta fólk er búið að lifa við í áratugi, er heilsufarslegt ástand þess mjög slæmt.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta kortlagt? Er vitað um hverjir eru þarna og hvað á að gera fyrir þetta fólk?