150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

skýrsla um bráðamóttöku Landspítalans.

[10:52]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Í upphafi árs var skipaður átakshópur sem gert var að greina og koma með tillögur að því hvernig ráða mætti bót á ófremdarástandinu á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Fékk átakshópurinn til liðs við sig tvo sænska sérfræðinga, reynda menn og virta, til að rita álitsgerð sem hefur nú komið fram og er kynnt sem ytri endurskoðun, skýrsla til heilbrigðisráðherra. Landsmönnum birtist álit þessara sérfræðinga til að mynda með frétt á vefmiðlinum Vísi þann þriðja þessa mánaðar þar sem kemur fram að stjórnendur Landspítalans hafi ekki brugðist við vanda bráðamóttökunnar „þrátt fyrir að hann hafi verið þeim augljós um langt skeið að mati tveggja sænskra sérfræðinga“, eins og segir þar, með leyfi forseta, og áfram segir í fréttinni að í stað þess að grípa til aðgerða hafi þeir málað spítalann upp sem fórnarlamb, sem hafi beinlínis verið hættulegt að mati sérfræðinganna.

Skýrsla þessara sænsku sérfræðinga verður ekki skilin öðruvísi en sem þung gagnrýni á stjórnendur spítalans í þessu.

Það er við þessar aðstæður sem mér gafst í gær tækifæri til að mæla fyrir frumvarpi um að skipuð verði stjórn yfir Landspítalanum. Eins og rakið er í greinargerð hafa hvort tveggja læknaráð og yfirlæknar í prófessoraráði Landspítala talað fyrir því að yfir spítalann verði skipuð sérstök stjórn sem fulltrúar fagfólks ættu sterka aðkomu að.

Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra um viðbrögð hennar við skýrslu hinna erlendu sérfræðinga og sömuleiðis hvort hæstv. ráðherra væri tilbúin til að beita sér fyrir því að við þá endurskoðun sem nú stendur yfir á lögum um heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) verði þetta efnisatriði tekið inn, að skipuð verði stjórn yfir spítalann undir þeim formerkjum sem rakin eru í því frumvarpi sem ég hef hér nefnt og mælti fyrir í gær.