150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:21]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Þetta er áhugaverð og þörf umræða. Ég tek undir mikilvægi þess að styrkja og aðstoða foreldra með því að útvega þeim verkfæri og þekkingu til að aðstoða börnin sín. Ég þekki einnig mjög vel sem foreldri að oft skortir mann verkfæri og þekkingu um hvernig maður getur aðstoðað börnin sín í gegnum þennan mjög svo erfiða tíma sem er þetta þroskaskeið, sérstaklega á yngri árum.

Við umfjöllun velferðarnefndar á seinasta ári um skýrslu UNICEF um stöðu barna á Íslandi kom fram að stór hluti heimilisofbeldis á sér t.d. skýringu í yfirþyrmandi streituástandi foreldra vegna erfiðra aðstæðna. Má þar nefna streitu vegna fjárhagsáhyggna, fátæktar, of langs vinnudags, streitu sem umbreytist hreinlega í bugun vegna aðstæðna foreldra. Þarna eru hegðunarerfiðleikar barna að færast í aukana vegna þess að foreldra skortir verkfærin, tímann og getuna til að aðstoða börnin sín og þar af leiðandi aukast einnig harkaleg viðbrögð foreldra. Þetta verður vítahringur sem verður æ erfiðara að slíta. Þetta er raunverulegt vandamál fyrir þessar fjölskyldur. Þátturinn Kveikur gaf okkur nýlega innsýn í líf fátækra og þar kom í ljós að 10.000 börn lifa í fátækt á Íslandi, forseti. Þetta er fáránlegt. Það hlýtur að vera forgangsatriði í samfélagi okkar að uppræta fátækt. Við hljótum að sjá að þetta er grundvöllurinn að því að ala upp heilbrigð börn sem líður vel og fá að blómstra í samfélaginu okkar.

Einnig fengum við innsýn í hvernig kerfið tekur á móti og dílar við einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða. Þetta eru einstaklingar sem eiga líka börn. Þarna er fólk sem við þurfum að aðstoða og hjálpa en ekki stimpla sem glæpamenn og eitthvert óæskilegt fólk í samfélaginu. Þetta er fólk sem þarf á því að halda að við opnum faðminn og hjálpum því.

Varðandi námskeið fyrir foreldra er það gott og vel (Forseti hringir.) en ég tel gríðarlega mikilvægt að við niðurgreiðum líka sálfræðiaðstoð því að þarna er ofboðslega mikil þekking sem foreldrar gætu nýtt sér. Það myndi spara okkur heilmikinn pening í samfélaginu ef foreldrar gætu sótt sér aðstoð sálfræðings strax í byrjun og fengið þá aðstoð og ráðgjöf sem þau þurfa á að halda til að aðstoða börnin sín. Takk fyrir þessa umræðu.