150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu barna. Ég þakka hv. þm. Unu Maríu Óskarsdóttur fyrir þessa umræðu sem og ráðherra. Hvers vegna erum við í þessari stöðu? Hvers vegna eru einhverjir í stöðu eins og hefur verið bent á, 10.000 börn í fátækt? Hvers vegna í ósköpunum eru 3.000 af þeim börnum í sárafátækt? Hvernig stendur á því að við erum með þjóðfélag sem býður upp á þetta? Hvaða afleiðingar hefur það fyrir þessi börn?

Við skulum horfa á hvað er í gangi í þjóðfélaginu í dag. Við getum horft á Reykjavíkurborg þar sem deilt er og stór hópur fólks á barnaheimilum er í verkfalli. Þeir sem eru að passa börnin eru lægstir í launastiganum, láglaunaþrælar sem eru með laun undir lágmarkslaunum, undir fátæktarmörkum.

Hvað hafa flokkarnir í Reykjavíkurborg á stefnuskrá sinni? Jú, að bæta kjör kvenna. Hafa þeir nýtt tækifærin til þess? Nei, þeir vilja frekar vera í verkfalli en að bæta kjörin. Þetta eru konur sem eru að vinna tvö störf, slíta sér út — og hvar eru börnin á meðan? Þau eru með lykla um hálsinn. Hvernig í ósköpunum getum við látið svona hluti viðgangast áratug eftir áratug? Núna er komið á þriðja ár síðan Flokkur fólksins var stofnaður um það að berjast gegn fátækt barna. Þá voru 10.000 börn í fátækt og þá voru líka 3.000 börn í sárafátækt. Ekkert breytist. Það er okkar á þingi að sjá til þess að breyta þessu og við eigum að breyta þessu strax barnanna vegna.