150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:35]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Eins og aðrir vil ég byrja á að þakka hv. þm. Unu Maríu Óskarsdóttur fyrir að vekja máls á málefnum sem varða börn og ungmenni í þingsal. Það er gott framtak. Það sem helst ógnar lýðheilsu barna að mínu mati er fátækt og misskipting. Þá skal haft í huga að fátækt lýsir sér líka í andlegum og menningarlegum næringarskorti. Við sjáum sums staðar blikur á lofti. Sum svæði virðast vera afskipt og fjársvelt hvað varðar uppbyggingu á innviðum og gæði þjónustu og það bitnar á börnunum sem fá þá ekki skóla og það félagslíf sem þeim ber. Þessu geta fylgt félagsleg vandamál og illvíg átök á milli þjóðfélagshópa þegar fram líða stundir. Þegar foreldrar eiga um sárt að binda og eiga í erfiðleikum er ekki hlutverk stjórnvalda eða yfirvalda að refsa þeim eða dæma þá heldur að hjálpa þeim til heilsu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Stjórnvöld þurfa að auka jöfnuð og beina sjónum sérstaklega að kjörum barna sem standa utan við meginstrauminn og taka utan um þau börn alveg sérstaklega. Það kostar bæði alúð og fjármuni.

Herra forseti. Ég verð að játa að ég veit ekkert um lýðheilsu en ég held að fátt sé verra leiðarljós í þessum efnum en gamla íslenska alþýðuspekin: Á misjöfnu þrífast börnin best. Ég held að börn þurfi hreyfingu, næringu, menningu og ást — og jöfnuð.