150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Ég tek undir mikilvægi þess að foreldrar fái alla þá aðstoð sem þau þurfa í sínu mikilvæga hlutverki sem uppalendur. Hugurinn að baki innleggi hv. málshefjanda er eflaust góður og sjálfsagt að ræða stuðning við foreldra í uppeldi á börnum sínum. Ég kemst þó ekki hjá því að lesa á milli línanna og setja flutningsræðu málshefjanda í samhengi við málflutning Miðflokksins um sýn hans á æskilegt uppeldi barna í dag. Hv. málshefjandi, Una María Óskarsdóttir, vísaði til vissra aðgerða sem formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, greip til á sinni tíð sem forsætisráðherra. Það er góðra gjalda vert að huga að lýðheilsu barna en ég get ekki sagt að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætti að vera leiðarljós foreldra í uppeldi sínu (Gripið fram í: Nú?) með sínar forneskjulegu hugmyndir um barnauppeldi. Mér eru enn minnisstæð orð hv. þingmanns í Kryddsíldinni á síðasta ári þar sem hann gat ekki hugsað sér að börn fræddu foreldra sína um loftslagsbreytingar, þessu ætti að vera öfugt farið, foreldrar skyldu fræða börn sín og búið, burt séð frá því að aðgerðaleysi foreldranna ógnar framtíð barnanna.

Hv. málshefjandi virðist hafa töluverðar áhyggjur af því að tölvuleikir valdi ljótum munnsöfnuði og sendir okkur helst óljós skilaboð um hvað valdi ofbeldishegðun hjá börnum í því samhengi. Látum það liggja á milli hluta, en eflaust er það rétt sem löngum hefur verið haldið fram, að eldri kynslóðir telji ungdóminn ávallt óalandi og óferjandi, miklu óstýrilátari en þær voru sjálfar. Mér finnst ég skynja þennan anda svífa yfir vötnum sem endranær þegar málefni ungs fólks eru rædd, enda á ungt fólk fáa fulltrúa hér. Ég vil því koma yngstu kynslóðinni til varnar. Hún er betur búin, víðsýnni og jafnvel réttsýnni en við öll hér með tölu. Því færi vel á því að við leyfðum henni endrum og eins að ala okkur upp.