150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hérna uppeldi, forvarnir og lýðheilsu barna og höfum farið út um víðar grundir. Ég held að það sýni bara hvernig uppeldi við höfum fengið sem þingmenn.

Hvernig eigum við að taka á uppeldi barna þegar við erum með allt of stóran hóp, eins og hefur komið fram, í fátækt og sárafátækt? Við erum með íþróttastyrki en fátækustu fjölskyldurnar geta ekki nýtt sér þá vegna þess að styrkurinn er ekki nóg. Hann dugar kannski fyrir því að fara í fótbolta, handbolta eða fimleika en að komast þangað er bara fyrsta skrefið. Þá vantar föt, skó og ýmsan annan búnað. Þeim sem eru neðst í fæðukeðjunni er haldið þar af stjórnvöldum, af ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, og þeir hafa ekki efni á þessu.

Síðan er líka annað, við erum með stóran hóp af börnum sem þurfa aðgang að Barna- og unglingageðdeildinni. Þar eru ótrúlegir biðlistar. Hvaða áhrif hefur það? Hjá ADHD-samtökunum eru greiningar líka í uppnámi. Þetta sýnir að við erum föst í sömu hringekjunni, ekkert skeður, allt er óbreytt og við komum aftur eftir kannski ár eða tvö ár og ræðum nákvæmlega sama hlutinn og ekkert hefur breyst. Ég held að spurningin sé: Er það uppeldi okkar sem veldur þessu eða hvað veldur því að við ræðum alltaf sömu hlutina án þess að breyta neinu?