150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn. Sú bókun fjallar um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá utanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Nefndin óskaði í framhaldi af þeim fundum, sem voru ágætir, og gagnlegar umræður sem áttu sér stað í utanríkismálanefnd um þetta mál, einnig eftir svörum við spurningum sem lúta að þessu máli. Voru ráðuneytin innt eftir svörum við þeim. Þau svör bárust greiðlega og eru birt, vistuð með þessu máli, á heimasíðu Alþingis með hefðbundnum hætti með innsendum erindum. Þá er þar einnig lögð fram og gerð opinber kynning sem utanríkismálanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd fengu á málinu á sameiginlegum fundi nefndanna tveggja í aðdraganda þessa máls sem er í samræmi við þinglega meðferð EES-mála. Það er fundur sem haldinn var fyrir rúmu ári og var lögð fram svokölluð glærukynning sem var þá þar gerð opinber.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 31, eins og ég hef áður rakið, og um leið að fella inn í samninginn gerðir sem varða samkomulag Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um sameiginlegt markmið um samdrátt í losun á tímabilinu 2021–2030.

Það er rakið í nefndarálitinu sem og að sjálfsögðu í tillögu til þingsályktunar um hvaða gerðir er að ræða. Þær eru þarna nokkrar.

Ég vil taka fram að hér er ekki um hefðbundið EES-mál að ræða, eins og reyndar kemur fram í 4. kafla þingsályktunartillögunnar, í greinargerð með henni. Það er nefnilega matsatriði hvort einstakar ESB-gerðir á sviði umhverfismála falla undir EES-samninginn. Sumar gerðir hafa vissulega verið felldar undir EES-samninginn, eins og t.d. reglur sem lúta að viðskiptakerfi Evrópusambandsins sem fjallað er hér um almennt sem ETS-kerfið. Mér virðist það hafa verið gert vegna sérstakra óska Íslands þar að lútandi, þ.e. um að taka þátt í þessu kerfi en ekki hefðbundið EES-mál sem slíkt sem Ísland var skuldbundið til að taka þátt í á grundvelli EES-samningsins vegna þess að EFTA-ríkin hafa almennt lagst gegn því að aðgerðir á sviði skuldbindinga í loftslagsmálum séu felldar inn í EES-samninginn. Það þarf kannski ekki að koma á óvart vegna þess að EFTA-ríkin eru, eins og menn þekkja, Ísland og Noregur einkum og sér í lagi og Liechtenstein líka. Ísland og Noregur njóta mikillar sérstöðu í loftslagsmálum í samanburði við Evrópusambandsríki.

Þetta þingmál á rætur að rekja til þátttöku Íslands í Parísarsamkomulaginu árið 2016 en með því skuldbundu aðildarríki sig til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með tilteknum aðgerðum. Árið 2018 fór Ísland í viðræður við ESB um að fá að vera í samfloti með ESB-ríkjum í þeirri vegferð að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Af hálfu ESB var það krafa að ef Ísland vildi vera í samfloti þyrfti að búa um það samstarf á grunni EES-samningsins og þannig þyrfti Ísland að undirgangast sömu skuldbindingar og aðildarríki Evrópusambandsins, t.d. er varðar eftirfylgni.

Bæði Ísland og Noregur höfðu aðrar hugmyndir um þetta samstarf en lendingin varð þó í samræmi við óskir ESB, þó þannig að gerðir ESB yrðu framvegis felldar inn í bókun 31 við EES-samninginn en ekki inn í kafla samningsins sem fjallar um umhverfismál. Þannig er því haldið vel til haga að þetta samstarf sé í eðli sínu og lögfræðilega, de jure eins og við segjum stundum, ekki á meðal þess sem samið var um er Ísland skrifaði undir EES-samninginn. Að þessu leyti er þingmál þetta ekki hefðbundið EES-mál sem koma hér til afgreiðslu á færibandi.

Noregur hefur ekki áður átt í samstarfi við ESB í loftslagsmálum en óskaði eftir því á því tímabili sem hér um ræðir. Bæði Ísland og Noregur óskuðu eftir því að gera hefðbundinn þjóðréttarsamning þar að lútandi en að kröfu ESB var farin sú leið að nýta EES-samninginn í þessum tilgangi og þá bókun 31 eins og ég hef rakið.

Almennt fylgja valdheimildir ekki bókun 31 en í þessu tilviki var ákveðið að byggja á hinu hefðbundna tveggja stoða kerfi og þannig eru því EFTA-dómstólnum og Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, veittar valdheimildir í tengslum við nýtingu bókunar 31 í þessum tilgangi.

Þetta mál er sem sagt ekki hefðbundið EES-mál þótt það komi inn á þingið undir þeim formerkjum og fær umfjöllun hér í samræmi við það. Að mínu mati er galli á því að umfjöllunin er þá frekar takmörkuð. Málið kom fyrst inn til þingsins, eins og ég rakti áðan, árið 2018 áður en það kom til kasta sameiginlegu EES-nefndarinnar og var kynnt í utanríkismálanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd með þeim hefðbundna hætti sem EES-málin eru kynnt og fengu nefndirnar sameiginlega kynningu eins og ég nefndi áðan. Ég hvet alla til að kynna sér það vegna þess að þar eru glærur sem voru ekki gerðar opinberar eftir þann fund en eru ágætar og upplýsandi um málið. Málið kom aftur til utanríkismálanefndar sem er þá þetta þingmál þegar sameiginlega EES-nefndin hafði samþykkt það.

Við fjölluðum um málið eins og ég nefndi og fengum gesti og það vöknuðu spurningar, m.a. vöknuðu spurningar um af hverju Ísland ætti að vilja vera í samfloti með ESB-ríkjunum þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda, þá auðvitað í ljósi þeirrar miklu sérstöðu sem Ísland hefur í þessum efnum þar sem hér eru 80% af allri orkunotkun endurnýjanleg og stærsti hluti losunar gróðurhúsalofttegunda er vegna framræsts lands. Ísland hefur þess utan líka dregið mjög verulega úr losun, t.d. með húshitun sem er hér vegna jarðvarma, en þessi samdráttur í losun átti sér stað á Íslandi löngu áður en viðmiðunarárin eru tilgreind í þessum samflotsaðgerðum.

Upphafsár loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kyoto er 1990. Kannski er engin tilviljun að það ár er viðmiðunarár, stuttu eftir fall múrsins þegar Austur-Evrópuríkin drógu í kjölfarið verulega úr losun eftir þetta tímabil. Viðmiðunarár Evrópusambandsins er hins vegar 2005 og er vísað um það til viðskiptakerfisins ETS. Samkvæmt svari frá utanríkisráðuneytinu miðar Evrópusambandið við 2005 vegna þess að það er það ár, reyndar ári síðar, sem ETS hóf þá göngu sína. Eftir sem áður er samkvæmt svari frá utanríkisráðuneytinu 1990 ákveðið grunnár.

Gjarnan er vísað til þess að Ísland hóf sjálfviljugt þátttöku í ETS-kerfinu árið 2008 en um 40% losunar Íslands falla þar undir. Það er sem sagt stóriðjan, flugið og þess háttar. Ísland tók sjálfviljugt þátt í þessu kerfi og því er eðlilegt að spyrja af hverju Ísland hafi tekið þátt í því að vera í þessu kerfi en hafi ekki frekar tekið á sig almennar skuldbindingar um losun miðað við heildarlosun Íslands í ljósi þess að heildarlosun Íslands er um 15 milljónir tonna af koltvísýringi, og þar af er votlendið eða losun vegna framræsts lands 9 milljónir tonna. Það er reyndar ekki sú losun sem er til umfjöllunar í þessu samfloti heldur bara lítill hluti þess sem er 3 milljónir tonna því að ESB hefur fundið upp einhvers konar bókhald sem virðist ekki vilja fjalla um raunverulega losun heldur bara hluta af raunverulegri losun, svokallaða bókhaldslega losun. Eftir stendur að skuldbinding Íslands er því í þessu samfloti að draga úr losun um 0,25% á ári frá árinu 2005 til 2030. Auðvitað hljóta menn að spyrja í framhaldinu hvað aðgerðir sem draga úr þessari losun um 0,25% á ári kosti. Að mínu viti eru ekki miklar álögur, ekki mikil boð og bönn, sem hægt er að réttlæta með svona takmörkuðum árangri á einungis 0,25% samdrætti í losun. Hvaða afleiðingar geta þessar samflotsskuldbindingar þannig haft á íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili? Kann að vera að t.d. álver sem þurfa að kaupa einhvern losunarkvóta í þessu ETS-kerfi sem það mun þurfa að gera í framtíðinni þótt það þurfi ekki að gera það núna þurfi, jafnvel þótt það noti endurnýjanlega orkugjafa eins og hér á landi, sjái sér hag í því hreinlega að flytja af ESB-svæðinu? Þetta eru spurningar sem vakna og ég held að það sé ágætt að hafa þær bak við eyrað í umræðum um þessi efni og þær innleiðingar sem koma í kjölfarið á þessu samfloti í bókun 31.

Við höfum líka áður séð að loftslagstengdar aðgerðir Evrópusambandsins, ákvarðanir Evrópusambandsins undanfarin ár, hafa í raun reynst verri en ekki. Ég get nefnt þar t.d. áherslu Evrópusambandsins á dísilbíla á kostnað bensínbíla. Ég held að allir séu sammála um það í dag að það hafi verið óráð. Þetta er hugmyndafræði sem var innleidd Íslandi, er enn við lýði og hefur ýtt mörgum bíleigandanum út í meira mengandi fararskjóta.

Annað dæmi er íblöndun lífeldsneytis í hefðbundið eldsneyti sem hefur haft hrikalegan kostnað í för með sér, yfir 2 milljarða á ári sem mér sýnist að fari upp í 4 milljarða á þessu ári. Það er kostnaður sem felst í minni tekjum ríkissjóðs vegna niðurgreiðslu til erlendra framleiðenda á þessum efnum, fluttir inn til landsins, fyrir utan neikvæð áhrif sem þetta hefur haft á náttúruna og matvælaverð.

Við horfum einnig með nokkurri furðu á kerfi upprunaábyrgða sem virðist gera fyrirtækjum kleift að segja rangt frá uppruna orkunnar. Því verður ekki neitað. Þá er ótalin sú staða innan Evrópusambandsins að stór hluti endurnýjaðrar orku sambandsins er fengin með bruna á lífmassa eins og skógarafurðum.

Mig langar að nefna hér að lokum að til samanburðar við þessa skuldbindingu Íslands um að draga saman losun um tæpa 1 milljón tonna af koltvísýringi má nefna að árlegur sparnaður losunar sem þegar er fenginn á Íslandi við virkjun fallvatna og jarðvarma hér á landi fór fram á sjöunda og áttunda áratugnum, sá samdráttur er talinn tæpar 20 milljónir tonna, sá samdráttur í losun sem Ísland hafi þegar hrundið í framkvæmd, löngu fyrir árið 1990, viðmiðunarárið sem menn byggja á. Þetta eru tölur sem nefndin fékk frá umhverfisráðuneytinu og byggja á tölum frá Orkustofnun.

Annar samanburður sem kann líka að þykja áhugaverður, mér finnst það a.m.k., er að við þá losun koltvísýrings sem flyst inn á rafmagnsreikningana hér á landi við sölu upprunaábyrgða virðist sem sala upprunaábyrgða færi íslenskum raforkunotendum 9 milljónir tonna af koltvísýringi.

Ég geri mér grein fyrir, og það er mikið í umræðunni hér, að þetta eru tvö aðskilin kerfi, þ.e. losunarkvótarnir og upprunaábyrgðirnar. Spurningin sem vaknar einmitt þegar á það er bent er: Af hverju eru þetta aðskilin kerfi? Hafi menn raunverulegan áhuga á að draga úr raunverulegri losun, af hverju eru þessi kerfi aðskilin? Það er umræða sem ég vona að fari fram á næstu misserum hér í góðu samtali við Landsvirkjun og þá sem selja þessi vottorð. Í farvatninu er tilskipun hjá Evrópusambandinu um endurnýjanlega orkugjafa og hvata til að nota endurnýjanlega orkugjafa sem myndi, ef það væri innleitt á Íslandi, leggja þá skyldu á Ísland og íslensk fyrirtæki að fá útgefin vottorð um uppruna orkunnar. Í dag er ekki skylda fyrir fyrirtæki til að framvísa slíkum vottorðum en í Evrópusambandinu hefur verið sett reglugerð sem kveður á um slíka skyldu og kann að henta þeim ágætlega í Evrópusambandinu sem hafa lokað kerfi raforku þar sem inn á kerfin fer alls konar orka. Íslendingar sem ekki taka þátt í því lokaða kerfi hljóta að spyrja sig í hvaða leik menn eru að taka þátt með þessu.

Ég árétta að vottunarkerfin eru óháð losunarkerfunum. Spurningin er bara af hverju.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um nefndarálitið sem slíkt. Eins og ég nefndi í upphafi eru þar margar reglugerðir sem eru innleiddar og ég vænti þess að umhverfis- og samgöngunefnd hafi farið yfir þær allar. Einhverjar þeirra munu kalla á frekari lagabreytingar sem koma þá hérna til umræðu. Vil ég þá hvetja til gagnlegrar og málefnalegrar umræðu um þær lagabreytingar sem margar hverjar eru alveg ágætar og fyrirséð að verða fyrirtakslagabreytingar.

Ég vil að lokum nefna að nefndarálit þetta liggur frammi á þskj. 1055 og undir það skrifa Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Ólafur Ísleifsson, með fyrirvara, þótt það hafi láðst að prenta það hér í því gagni sem liggur frammi og sú sem hér stendur er einnig með fyrirvara.