150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var þó efnislega afar rýr og kannski ekki við öðru að búast úr þeim ranni en að einatt sé fundið að forminu. Ef hægt er að haka í einhver box vilja menn helst gera það. Það er kannski ekki í þessu nema þá boxið sem segir til um að mál sé afgreitt. Ekkert fór fyrir efnislegri umfjöllun.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað það var efnislega sem hann var ósáttur við að ég skyldi draga hér fram. Allt af því eru bara tölulegar staðreyndir byggðar á svörum frá utanríkisráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Orkustofnun, og sögulegar staðreyndir um aðdraganda samvinnu.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji það málum á þinginu almennt til minnkunar eða skaða að um þau fari fram efnisleg umræða í þessum sal þótt þau mál komi frá utanríkismálanefnd, sem oft og tíðum hefur tekið að sér að vera stimpilpúði fyrir mál á færibandi frá Evrópusambandinu.