150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[12:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á engan hátt hvekktur. Ég vil einfaldlega halda því til haga að hér var framsögumaður ekki að mæla fyrir mína hönd. Hv. þingmaður sagði það sjálf undir lok ræðu sinnar að nú ætlaði hún að víkja aðeins frá efni nefndarálitsins. Þá var hún búin að tala í 10–12 mínútur án þess að ræða nokkuð þá niðurstöðu að innihald ræðu hennar var ekki talið eiga heima í nefndarálitinu. Mikill meiri hluti nefndarinnar tók þá ákvörðun að hafa það með einfaldari hætti og hafa þessa hluti ekki inni.

Hún kann að vera ósammála því og hv. þingkona getur komið í ræðu og gert grein fyrir því. Ég mótmæli því og vil halda því til haga að hún er ekki að tala fyrir hönd okkar hinna, a.m.k. margra, sem skrifum undir þetta nefndarálit.

Hins vegar er þetta stórmerkilegur dagur vegna þess að hann kallar á að Sjálfstæðisflokkurinn, sem ber ábyrgð á tilnefningu hv. þingkonu í þessa nefnd og leggur til að hún verði formaður, geri grein fyrir því hvort flokkurinn svona heilt yfir deili sýn formanns fastanefndar síns þingmanns. Það skiptir stóru máli. Ég þykist vita og ég fullyrði að það gera ekki fulltrúar hinna flokkanna tveggja sem sitja í stjórnarliðinu og það hefur komið skýrt fram á nefndarfundum.

Ég hlýt að kalla eftir skýringum frá formanni Sjálfstæðisflokksins á því hvort hv. þingkona talar í umboði flokks hans.