150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[12:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Vofa afneitunar gengur ljósum logum um heiminn, afneitunar á loftslagshlýnun, hamfarahlýnun af mannavöldum. Þau sem lengst ganga í því hafa þó fundið að hrein og klár neitun á því gengur eiginlega ekki lengur. Það er skotið niður. Við sjáum um allan heim að þau sem eru þeirrar skoðunar finna nýjar leiðir. Þau segja: Vissulega er hlýnun af mannavöldum en það hefur verið hlýnun áður. Ég var nú að lesa Íslendingasögurnar og þá kemur þetta fram. Hvernig var með Grænlandsjökul? Eða: Vissulega er hlýnun af mannavöldum en aðgerðirnar sem verið er að leggja til — þvælum okkur í smáatriðum, gleymum okkur í litlu kirnunum, festum umræðuna við eitthvað sem ekki skiptir máli í þeirri von að hægt sé að setja sand í tannhjólið sem þarf að snúast af fullum krafti ef okkur öllum sem heimsbyggð á að takast að snúa þessari þróun við.

Þess vegna er ég sérstaklega ánægður með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og stjórnarflokkana þrjá, Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, því að ríkisstjórnin, stjórnvöld á Íslandi, tók þá skynsamlegu ákvörðun að fara saman í þetta mál með Evrópusambandinu og Noregi í stað þess að veifa séríslenskum lausnum. Við sjáum öll hversu vel það fór í Kyoto-málinu og reynslan ætti að sýna okkur að við viljum ekki fara þangað. Sum læra ekki af reynslunni en við ákváðum að taka okkar ábyrgð af alvöru. Ég er ánægður með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fyrir það. Ég er ánægður með hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem vann að því að við tengdum okkur við Noreg og Evrópusambandið. Ég er ánægður með hæstv. utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaug Þór Þórðarson, sem lagði fram það mál sem hér er verið að fjalla um. Ég er ánægður með þingflokka Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem saman stóðu að því að þessi mál kæmu hér til umræðu. Ég er ánægður með þetta. Það sýnir að að uppistöðu til eru þau sem skipa þann meiri hluta sem stendur að ríkisstjórninni sannfærð um að hvorki dugi vettlingatök né heimatilbúnar afsakanir, ekkert: Já, en hvað með þetta og hvað með hitt?

Það þarf að grípa til stórtækra aðgerða til að berjast gegn hamfarahlýnun. Þetta er góður dagur.