150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[12:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Loftslagsváin er án nokkurs vafa okkar allra stærsta áskorun. Við henni erum við að bregðast, m.a. með þátttöku í Parísarsamningnum svokallaða sem var gríðarlega mikilvægt skref á sínum tíma. Við þetta verkefni verður ekki ráðið öðruvísi en að þjóðir heims standi saman. Það tókst á endanum eftir mikla þrautaraun í París árið 2015.

Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér er í raun staðfesting á því að við erum að setja þessi markmið okkar inn í EES-samninginn. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Sigríði Andersen að ekki er um hefðbundna EES-gerð að ræða, enda kemur það skýrt fram í þingsályktunartillögunni. Hér er engu að síður um að ræða mjög mikilvægt mál. Íslensk löggjöf á sviði umhverfismála er að stórum hluta reist á regluverki ESB og hefur að stórum hluta verið tekin upp í EES-samninginn.

Ég tel að þetta mál hafi fengið góða umfjöllun. Það var ósk okkar á sínum tíma að ganga inn í samkomulagið með Evrópusambandinu. Í ljósi þess að við höfðum þegar tekið upp svokallað ETS-kerfi myndi einfalda málið að hafa þetta allt undir EES-samningnum. Ég er því sátt við þá útfærslu sem hér liggur fyrir og fagna því að við afgreiðum þetta mál og staðfestum enn og aftur heit okkar á Íslandi um að við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa undir þeim markmiðum sem fram eru sett í Parísarsamningnum. Reyndar höfum við sett okkur markmið um að ná enn lengra.

Ég get aftur á móti tekið undir þá umræðu að við eigum alltaf að ræða ítarlega og vel þau mál sem koma frá Evrópusambandinu. Í mínum huga er enginn skortur á vilja til þess en það mál sem við afgreiðum hér með nefndaráliti utanríkismálanefndar, og ég skrifa undir, er gott og því ber að fagna. Ég hvet okkur öll til að halda áfram á þeirri góðu vegferð sem við höfum verið á hingað til og bíð spennt eftir að sjá aðra útgáfu af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum því að þar setjum við okkur enn frekari og sterkari markmið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)