150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2020 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

613. mál
[13:46]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2020 sem mælir fyrir um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2436, um að samræming á lögum aðildarríkja um vörumerki verði felld inn í EES-samninginn.

Í tilskipuninni felast nokkur nýmæli, bæði til samræmingar á reglum aðildarríkja Evrópusambandsins og EES-/EFTA-ríkjanna hvað varðar skráningu, andmæli, notkun og verndartíma vörumerkja, en einnig ítarlegri ákvæði en áður um tengd réttindi, þ.e. félaga-, ábyrgðar- og gæðamerki, ákvæði um afurðarheiti og plöntuheiti svo dæmi séu tekin. Þá er málsmeðferð vegna ágreiningsmála gerð ítarlegri skil en áður.

Ein af meginbreytingunum sem leiða af tilskipuninni er að horfið er frá þeirri kröfu að vörumerki þurfi að vera „sýnileg tákn“. Þess í stað er gert ráð fyrir að vörumerki geti verið hvers konar tákn sem annars vegar geti greint vöru og þjónustu eins aðila frá eins eða sambærilegum vörum og þjónustu annarra og hins vegar sé unnt að tilgreina þau í vörumerkjaskrá á þann hátt að greina megi skýrt og nákvæmlega til hvers einkarétturinn nær.

Með tilskipuninni er einnig bætt við almennum skráningarskilyrðum merkja. Þá kveður tilskipunin á um að tilgreina þurfi nægilega skýrt og nákvæmlega fyrir hvaða vöru og þjónustu merki óskast skráð.

Nauðsynlegt er að endurskoða ákvæði laga um vörumerki, nr. 45/1997, og laga um félagamerki, nr. 155/2002, vegna breytinganna. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti áformar að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörumerki og fella ákvæði laga um félagamerki inn í lög um vörumerki.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.