150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 259/2019 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

615. mál
[13:51]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 259/2019. Í henni er mælt fyrir um að felld verði inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 frá 16. apríl 2014 um markaðssvik og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB, 2003/125/EB og 2004/72/EB.

Umrædd reglugerð er í daglegu tali kölluð MAR og leysir af hólmi eldri tilskipun um sama efni sem innleidd var í íslenskan rétt með ákvæðum XIV. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Markmið reglugerðarinnar er að styrkja reglur um markaðssvik og meðferð innherjaupplýsinga og koma á samræmdara regluverki. Markaðssvik skaða virkni og heilbrigði fjármálamarkaðar og tiltrú almennings á verðbréfamörkuðum. Því er mikilvægt að tryggja að þær reglur sem gilda um markaðssvik innan EES séu samræmdar og skýrar.

Innleiðing reglugerðarinnar hér á landi kallar á breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, einkum á þeim köflum sem fjalla um meðferð innherjaupplýsinga, viðskipti innherja og eftirlit, og verður frumvarp þess efnis unnið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.