150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:58]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Líkt og kunnugt er lauk 18 mánaða langri setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um síðustu áramót. Ísland hefur aldrei tekið sæti í mannréttindaráðinu og raunar aldrei gefið kost á sér til setu í ráðinu fyrr en það gerðist sumarið 2018 að Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu og sæti losnaði þar sem fylla þurfti hratt og örugglega. Samstaða náðist um það í hópi Vesturlanda sem áttu sæti að Ísland færi fram og við vorum því ein í framboði þegar kosið var um sæti 13. júlí 2018. Við höfðum mánuðina og misserin á undan aukið virkni okkar sem áheyrnarríki og sá sem hér stendur hafði m.a. orðið fyrsti íslenski utanríkisráðherrann til að sækja ráðherraviku mannréttindaráðsins og flytja þar ávarp í febrúar 2017. Kosning Íslands í ráðið markaði þó vitaskuld tímamót. Um er að ræða eitt mikilvægasta verkefni sem íslensku utanríkisþjónustunni hefur verið falið. Í því samhengi má nefna að Ísland var fámennasta ríki Sameinuðu þjóðanna sem hlotið hafði kjör í ráðið. Fyrir vikið skipti máli að vel tækist til, ekki aðeins fyrir Ísland heldur almennt til að sýna fram á getu smærri ríkja til að leysa verkefni af þessum toga. Það er mikilvægt að mannréttindaráðið sé ekki aðeins fyrir stærri ríki og valdameiri heldur að það endurspegli Sameinuðu þjóðirnar sem heild og taki til umfjöllunar öll þau mál sem helst þarf að ræða, ekki aðeins þau sem tiltekin áhrifaríki telja brýnt að ræða.

Virðulegi forseti. Mannréttindaráðið er mikilvægur vettvangur umræðu um stöðu mannréttinda í heiminum og segja má að þar endurspeglist frá einum tíma til annars þeir vindar sem blása í alþjóðamálum. Algengt er að segja um þessar mundir að það hrikti í stoðum mannréttindakerfis og raunar allri fjölþjóðlegri samvinnu. Þá þurfa þau aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem vilja standa vörð um kerfið að vera tilbúin til að axla ábyrgð og tala fyrir alþjóðasamstarfi. Við lögðum upp með það þegar við undirbjuggum setu okkar í mannréttindaráðinu að Ísland myndi sýna að það væri tilbúið til að axla ábyrgð og taka frumkvæði og þannig leggja lóð á vogarskálar í þágu mannréttinda og sem dyggur stuðningsmaður alþjóðakerfisins.

Á meðan setunni stóð tók Ísland frumkvæði á ýmsan hátt þannig að eftir var tekið. Við höfðum forystu um sameiginlega yfirlýsingu 36 ríkja í mars 2019 um mannréttindaástand í Sádi-Arabíu en hún markaði tímamót. Sádi-Arabía hafði aldrei áður sætt sameiginlegri gagnrýni fjölda ríkja í ráðinu með sambærilegum hætti þótt fullt tilefni væri til. Morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi haustið áður hafði vakið óhug víða um heim en fullvíst er talið að fulltrúar stjórnvalda hafi staðið fyrir því. Fyrir okkur skipti þó ekki síður máli að lýsa áhyggjum okkar og óánægju með fangelsun fjölda fólks, einkum kvenna, sem ekki hefur annað gert af sér en talað fyrir mannréttindum í landinu. Við höfum séð ýmis merki um að gagnrýni og opinber umfjöllun um hana, þau skýru skilaboð sem það sendir um að umheimurinn fylgist með, hafi haft áhrif á framgöngu stjórnvalda í Sádi-Arabíu. Þá er til einhvers unnið svo að því sé til haga haldið.

Ísland hafði einnig forystu um ályktun um mannréttindaástandið á Filippseyjum þar sem meintar aftökur stjórnvalda á þúsundum manna án dóms og laga hafa vakið ugg. Á grundvelli ályktunarinnar eigum við von á skýrslu frá skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í sumar um stöðuna þar. Stjórnvöld sem ekkert hafa að fela ættu ekki að þurfa að óttast slíka skýrslu og ættu að sýna samstarfsvilja sem stjórnvöld í Filippseyjum hafa sannarlega ekki gert. Þvert á móti vöktu ýkt viðbrögð stjórnvalda á Filippseyjum talsverða athygli og gáfu síst til kynna að þarlendir ráðamenn teldu sig hafa góðan málstað að verja.

Við settum einnig jafnréttismál á oddinn, m.a. í formi ályktunar um jöfn laun karla og kvenna sem var samþykkt samhljóða og sem 70 ríki gerðust meðflutningsaðilar að. Í framhaldinu samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að 18. september verði framvegis helgaður jöfnum launum karla og kvenna. Enn fremur lögðum við mikla áherslu á réttindi hinsegin fólks en það á víða undir högg að sækja í heiminum og er verk að vinna þar.

Loks beittum við okkur fyrir umbótum á ráðinu. Mannréttindaráð er mikilvægur vettvangur fyrir umræðu um mannréttindamál en auðvitað er það ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk og við reyndum því að hafa jákvæð áhrif í þeim efnum með þó nokkrum árangri. Eins og fram kemur í skýrslunni náðum við í gegn breytingum sem auka hagkvæmni og skilvirkni ráðsins. Þegar allt þetta er tekið saman held ég að við getum sagt að það sem við lögðum upp með í starfinu og veru okkar þarna hafi gengið eftir. Ég held að grunnurinn að því sé að góð samstaða hefur verið til staðar. Við sjáum í skoðanakönnunum meðal almennings að um 80% styðja veru okkar þar og yfir 70% telja að miklar líkur séu á því að við höfum góð áhrif á stöðu mannréttindamála með framgöngu okkar. Ekki síst var það samstaða hér í þinginu, bæði í hv. utanríkismálanefnd og meðal þingmanna, sem gerði að verkum að við gátum farið einarðlega fram í málum sem við erum sammála um.

Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að fara yfir þessi mál. Þessi skýrsla var gefin út þar sem reynsla okkar og upplifun af því að vera í ráðinu er tekin saman, sömuleiðis er farið yfir umsagnir þeirra aðila sem hafa fjallað um veru okkar. Alla vega lengi framan af var meiri umfjöllun um það annars staðar en á Íslandi hvað við vorum að gera í ráðinu. Það er óhætt að segja að almenna reglan hafi verið sú, og hún var mjög almenn, að menn luku lofsorði á framgöngu okkar. Þess vegna erum við hér til að ræða þessi mál og ég hlakka til að taka þátt í þeirri umræðu. Fyrir okkur vakir auðvitað að ræða það og meta og við þurfum að ákveða það hvert verður framhaldið hjá okkur þegar kemur að mannréttindaráðinu. Ég hef lýst því yfir við þá aðila sem hafa talað við okkur, sem eru fjölmargir, bæði mannréttindasamtök og sömuleiðis þau lönd sem við berum okkur saman við, að við munum halda áfram að starfa í mannréttindaráðinu eins og við höfum svo sannarlega verið hvött til, sérstaklega af þessum sömu aðilum. En síðan þurfum við náttúrulega í framhaldinu að taka ákvörðun um það, þegar þau tækifæri koma, hvort við eigum að sækjast eftir áframhaldandi setu í ráðinu. Það verður auðvitað eftir nokkuð mörg ár þannig að það er ólíklegt að sömu aðilar verði í þeim embættum sem þeir eru í núna og þess vegna er mikilvægt, ef við ætlum að gera það, að þverpólitísk samstaða sé um það. En þegar allt er tekið saman þá getum við Íslendingar verið stoltir af því að það er litið til okkar sérstaklega þegar kemur að mannréttindamálum. Um það er ekki deilt. Alveg sama hvaða mælikvarða menn nota þá komum við vel út úr þeim samanburði og það er afskaplega mikilvægt og vonandi verður það þannig um alla framtíð.

Ég hef litið svo á að það sé hlutverk okkar sem erum svo lánsöm að lifa í landi þar sem mannréttindi eru virt, að leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar til að hjálpa til við að bæta stöðu mannréttindamála annars staðar í heiminum. Ég lít svo á að þessi vettvangur sé kjörinn til þess. Það er enginn vafi í mínum huga að vera okkar í ráðinu hefur verið farsæl og við höfum látið gott af okkur leiða. Ég er ekki einn af þeim mönnum sem telja að við Íslendingar getum leyst allan heimsins vanda. Ég held að það sé fullkomlega óraunhæft. Oft hefur það verið rætt, m.a. í þessum sal, að við ættum að takast á við mjög stór og erfið viðfangsefni úti í hinum stóra heimi. Ég tek ekki undir slíkar hugmyndir. En þrátt fyrir að sumir hafi talið að við værum of lítil til að geta staðið undir þessu mikla ábyrgðarhlutverki er enginn vafi í mínum huga, það eru öll teikn sem benda til þess, að það reyndist rangt. Við gátum fyllilega staðið undir þessu og við gengum þannig fram að eftir var tekið.

Framhaldið er hins vegar undir okkur öllum komið og verður áhugavert að hlusta á umræðuna hjá hv. þingmönnum sem eru hér og mér sýnist koma úr öllum flokkum þingsins. Það sem ákveður framtíðina er hvort við náum samstöðu um það sem er gert í ráðinu og hvort við ætlum að halda því áfram eins og við höfum gert fram til þessa.