150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara yfir skýrslu sína um störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þetta er afskaplega áhugavert viðfangsefni og ánægjulegt að við höfum fengið að taka þátt í þessu mikilvæga alþjóðastarfi.

Mig langar til að ræða tvennt við hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi vil ég vísa í ræðu sem hæstv. ráðherra hélt í mannréttindaráðinu 25. febrúar sl., þar sem hann sagði m.a. í lauslegri og kannski frekar lélegri þýðingu þeirrar sem hér stendur að við hefðum praktíserað það sem við predikuðum þegar kæmi að mannréttindamálum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í nokkur álitamál hvað það varðar, þ.e. hvort við séum sannarlega að praktísera það sem við predikum og séum sannarlega að starfa í samræmi við helstu áherslur Íslands eins og þær koma fram á heimasíðu Stjórnarráðsins í utanríkismálum. Þar kemur m.a. fram að meðal helstu áherslna Íslands í utanríkismálum sé að vinna að réttindum kvenna og barna og gegn öllu ofbeldi og mismunun gagnvart konum og börnum.

Af þeim sökum spyr ég hæstv. ráðherra hvernig það stenst þessar helstu áherslur Íslands að vísa flóttabörnum til Grikklands, eins og nú stendur til að gera, þar sem við vitum að aðstæður eru fullkomlega óviðunandi fyrir börn. Hvernig erum við þar að praktísera það sem við predikum, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni fyrir mannréttindaráðinu? Ég ætlaði líka að minnast á að mannréttindaráð hefur mælt með því við okkur að við samþykkjum stjórnarskrána sem íslenskur almenningur kaus að skyldi verða ný stjórnarskrá Íslendinga og að við komum á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun en hvorki stjórnarskráin né mannréttindastofnun hefur komist í gagnið í stjórnartíð hæstv. ráðherra frá því að þessi tilmæli mannréttindaráðsins komu fram.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig erum við að praktísera það sem við predikum í þessum þremur þáttum?