150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra kemur sér hjá því að svara með nákvæmlega sama hætti og ég hef tekið eftir að ríki koma sér hjá því að svara þegar bent er á hvað er að heima hjá þeim. Þá benda þau á önnur lönd, að ástandið sé verra þar. Þetta er mjög klassísk taktík í umræðunni þegar ræða á sértæk mál sem snúa að ákveðnu ríki, eins og ég lagði upp með. Ég spurði um sértæk dæmi og hvernig þau samrýmdust áherslum Íslands í utanríkismálum. Þá er bent á að aðrir í heiminum standa sig verr og þar af leiðandi þýði ekkert að gagnrýna hvernig stjórnvöld hér standa að sinni mannréttindavörslu, í samanburði við aðra séum við alveg ágæt. Jú, vissulega hef ég reynslu úr utanríkisstarfi og ég þekki nákvæmlega þessa umræðutaktík til að koma sér hjá því að svara nákvæmum spurningum, að benda í einhverja allt aðra átt og reyna þannig að koma sér hjá því að svara. En nóg um það. Það er augljóst að það mun ekki örla mikið á svörum heldur frekar ásökunum í minn garð.

Ég vil því venda mínu kvæði í kross og spyrja hæstv. ráðherra um annan þátt í ræðu hans fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna en þar minntist hann á mismunun gagnvart Ísrael hjá mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað á hann við með því? Finnst honum ekki tilefni til þess að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna taki það alvarlega að þar hefur staðið yfir ólöglegt hernám í fleiri áratugi með víðtækum mannréttindabrotum, jafnvel stríðsglæpum og öðrum mjög alvarlegum brotum á alþjóðarétti? Er það stefna Íslands að tala máli Ísraels sérstaklega á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna? Eða er hæstv. utanríkisráðherra einn um þá skoðun?