150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:13]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmaður hefði lesið í ræðuna sem ég flutti hefði hún aldrei komið fram með þessa spurningu. Hún hefði aldrei komið hingað upp og spurt mig hvort við værum með þessum orðum að blessa mannréttindabrot, hvort sem er í Ísrael eða annars staðar, hvort við værum sérstakir talsmenn Ísraels. Hv. þingmaður hefur ekki lesið ræðu mína, það er algerlega augljóst. Ég fór nákvæmlega yfir það, sem ég held að flestir séu sammála um, að það á að sjálfsögðu að gagnrýna mannréttindabrot sem framin eru í Ísrael, að sjálfsögðu er ekkert gefið eftir með það, ekki neitt, eins og ég fór yfir í ræðunni. En það er ekkert samræmi í því að hafa alltaf fastan lið, Ísrael, á dagskrá miðað við það sem gerist annars staðar. Það er hægt að taka málefni Ísraels undir öllum liðunum en það er ekkert samræmi í þessu og það er ekki trúverðugt.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um að ég hefði verið að skorast undan því að svara, þá var ég ekkert að því. Ég sagði alveg skýrt, hvort sem hv. þingmaður tilgreinir þau mál sem hún tilgreindi í fyrra andsvari sínu eða önnur, að það væri fráleitt að halda því fram að við værum ekki að ganga fram með góðu fordæmi í mannréttindamálum. Það er fráleitt að halda því fram. Ég nefndi að það væri sjálfsagt mál að fara yfir þau mál sem hér væru rædd og öll önnur en að nota þau sem dæmi um að við stöndum ekki framarlega í mannréttindamálum stenst ekki nokkra einustu skoðun. Ég er ekkert að víkja mér undan því að svara eða benda á einhvern annan, ég er ekkert að því, ég er bara að segja að þetta stenst ekki nokkra einustu skoðun hjá hv. þingmanni. Ef hugarheimur hv. þingmanns er þannig að þessi mál séu þess eðlis að við séum þess ekki megnug að segja að við göngum á undan með góðu fordæmi í mannréttindamálum þá er hv. þingmaður á miklum villigötum.