150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og sérstaklega fyrir þessa skýrslu sem er vel fram sett og margt fróðlegt þar að finna, og þakka fyrir þessi ágætu vinnubrögð. Þó svo að Ísland hafi gerst aðili að flestum þeim alþjóðastofnunum sem settar voru á fót í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar gerðist Ísland, ólíkt hinum Norðurlandaþjóðunum, ekki virkur þátttakandi innan þeirra. Þetta óvænta tækifæri okkar að setjast í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna var kærkomið og í þeirri ágætu skýrslu sem hér er til umfjöllunar er þess getið að vilji stjórnvalda hafi staðið til þess að Ísland sýndi með virkum hætti að það ætti fullt erindi í mannréttindaráðið þrátt fyrir að vera minnsta ríkið sem hefur tekið sæti í ráðinu.

Ég er sammála þessu og er þeirrar skoðunar að Ísland eigi ávallt að vera rödd sem heyrist á alþjóðavettvangi. Við eigum til að mynda mikil og vannýtt tækifæri, að mínu mati, þegar kemur að friðarmálum í heiminum. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði fyrir ekki svo löngu að Ísland gæti haft mikil áhrif á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem oft sé litið til Íslands sem sáttasemjara, enda sé Ísland forysturíki á sviði jafnréttis og mannréttinda sem njóti trausts. Þetta eru mjög athyglisverð ummæli í okkar garð og ánægjuleg. Við eigum að líta á þessi ummæli sem tækifæri til þess að gera okkur sýnilegri á alþjóðasviðinu, sýnilegri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og sýna frumkvæði í alþjóðamálum.

Framkvæmdastjórinn nefndi sérstaklega að Ísland nyti trausts sem sáttasemjari. Traust er afar mikilvægt í sátta- og friðarumleitunum á alþjóðavettvangi. Það að Ísland sé herlaust land og land án vopnaframleiðslu styrkir stöðu okkar í þessum efnum. Ísland er alþjóðlegur frumkvöðull á sviði jafnréttismála, mannréttinda hinsegin fólks og jarðhitanýtingar sem sjálfbærrar lausnar á orkuþörf mannkyns. Áherslan á jafnréttismálin er mikilvæg því þar liggur geta og þekking okkar og möguleikar til að hafa áhrif. Aðkoma karla að kynjajafnrétti er mál sem Ísland hefur átt frumkvæði að. Rakarastofuráðstefna Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og NATO hefur vakið nokkra athygli og samkvæmt utanríkisráðuneytinu eru íslenskir ráðamenn meðal helstu talsmanna þess á alþjóðavettvangi að karlar leggi baráttunni fyrir kynjajafnrétti lið og er það vel. Þá er jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna gott dæmi um íslenskt frumkvæði á sviði jafnréttismála sem hlotið hefur alþjóðlega viðurkenningu. Íslandi hefur tekist að skapa sér sérstaka tengingu við kynjajafnréttismál. Árangurinn heima fyrir hefur vakið heimsathygli og áhersla landsins á málaflokkinn er vel þekkt meðal annarra ríkja. Þessi tenging ætti því að styrkja vinnu Íslands í þágu kynjajafnréttis.

Þegar kemur að mannréttindamálum hinsegin fólks er stuðningur íslenskra stjórnvalda meira í orði en á borði. Þrátt fyrir að hér á landi sé ein framsæknasta löggjöf í heimi hvað varðar réttindi hinsegin fólks virðast stjórnvöld ekki nýta sér þennan innlenda styrk til að skapa sérstaka tengingu við málefni hinsegin fólks á alþjóðavettvangi á sama hátt og gert hefur verið í tilfelli kynjajafnréttis. Ég tel að Ísland geti nýtt sér mun betur það einstaka tækifæri sem við höfum í mannréttindaráðinu til að beina sérstaklega spjótum að þeim löndum þar sem brot gegn hinsegin fólki eru hvað alvarlegust. Ég tel að í þann skamma tíma sem við sátum í mannréttindaráðinu hafi of mikil orka farið í ályktun Íslands gegn Filippseyjum. Filippseyjar eru ekki meðal tíu verstu þjóða heims þegar kemur að mannréttindabrotum og reyndar heldur ekki á topp 20 listanum. Ályktun Íslands fékk ekki þann stuðning sem vænst hafði verið og var tillagan naumlega samþykkt. Mikilvægt er að tryggja víðtækan stuðning í málum sem þessum áður en lagt er af stað. Á listanum yfir tíu verstu þjóðirnar, þegar kemur að mannréttindabrotum, eru hins vegar lönd sem brjóta verulega á réttindum hinsegin fólks, lönd á borð við Sádi-Arabíu, Katar, Jemen, Brúnei, Íran og Nígeríu, sem heimila að samkynhneigðir séu grýttir á götum úti. Í nágrannaríki Filippseyja, Malasíu, liggur 20 ára fangelsisdómur við samkynhneigð og svipuhögg fylgja. Það er einnig umhugsunarefni að eitt af 15 hættulegustu löndum í heiminum fyrir samkynhneigða er Palestína, sem er eitt af samstarfslöndum okkar í tvíhliða þróunarsamvinnu, land sem margir Íslendingar eru jákvæðir í garð og við vorum fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna sem sjálfstætt ríki. Í tíunda sæti á listanum yfir hættulegustu lönd heims fyrir samkynhneigða er Malaví sem er okkar aðalsamstarfsland á sviði þróunaraðstoðar til margra ára. Í fyrsta sæti á listanum yfir verstu mannréttindabrotin er Venesúela. Við hefðum átt að snúa okkur að því landi vegna þess að hingað koma fjölmargir flóttamenn frá Venesúela.

Herra forseti. Ég hef ekki orðið mikið var við það að íslensk stjórnvöld hafi gagnrýnt þessi lönd þegar kemur að mannréttindum hinsegin fólks. Þarna er stuðningur íslenskra stjórnvalda við samkynhneigða meira í orði en á borði. Við eigum að vera sjálfum okkur samkvæm þegar við tökum að okkur mikilvægt hlutverk á sviði alþjóðamála.

Við eigum fullt erindi í mannréttindaráðið að mínum dómi og ég tel að við eigum að sækjast reglulega eftir setu í því til skiptis við hin Norðurlöndin og í samstarfi við þau. Og svo að það sé sagt í þessu samhengi tel ég einnig rétt að Ísland sækist eftir setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar sú stund rennur upp eftir 12 ár.

Það sem skiptir máli í þessu er að þau markmið sem lagt er upp með, hvað sé æskilegt og hverju sé stefnt að, séu í breiðri pólitískri sátt. Við eigum að nýta styrkleika okkar og sérstöðu á þeim sviðum þar sem þörfin er mest.