150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Það fór ekki fram hjá mér að vissulega var minnst á málefni samkynhneigðra þegar við vorum í mannréttindaráðinu og það er ágætisyfirferð yfir það á bls. 34 í skýrslunni. Ég tel hins vegar að það hafi ekki verið nægilega gert í þeim efnum vegna þess að við höfum, eins og ég nefndi í minni ræðu, styrkleika í þessum efnum sem eftir hefur verið tekið á alþjóðavettvangi. Ég nefndi í því sambandi framsækna löggjöf á Íslandi og þar sem við stöndum okkur vel heima fyrir eigum við að reyna að nýta okkur það erlendis þegar við höfum þetta einstaka tækifæri til að vera í þessu ráði. Ég lagði þetta út þannig að við hefðum getað nýtt þetta tækifæri betur, sérstaklega gagnvart þeim löndum sem ég nefndi.

Vissulega er þetta málaflokkur sem er viðkvæmur, það kemur fram í skýrslunni, ég get tekið undir það, en við erum hins vegar í samstarfi við lönd, við erum í tvíhliða þróunarsamvinnu við lönd, sem eru talin mjög hættuleg fyrir samkynhneigða að heimsækja og það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um hvort ekki sé rétt að leggja áherslu á þennan þátt gagnvart þeim löndum, eins og ég fór yfir áðan í ræðu minni, Palestínu, Malaví o.s.frv. Þessi lönd líta upp til okkar og við eigum að nýta tækifærið og koma því vel og kirfilega á framfæri að þetta er eitthvað sem við leggjum áherslu á að unninn verði bugur á. Í þessu felast mínar áherslur hvað þetta varðar.

Ég þakka aftur hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans í þessu máli.