150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:28]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bara svo því sé til haga haldið þá setjum við í þróunarsamvinnunni sérstaklega fjármagn í baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks sem er í samræmi við utanríkisstefnu. Hv. þingmaður fór svo sem yfir það og nefndi Venesúela en við settum 13 milljónir til OHCHR sem er stofnun Sameinuðu þjóðanna sem leggur sérstaklega áherslu á jafnrétti LGBTI-fólks. Og við báðum um skýrslu vegna Filippseyja, það var nú ekki gengið lengra. Hv. þingmaður vísaði til Palestínu og bara nýverið var tvíhliða fundur við sendiherra Palestínu þar sem þau mál sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni voru tekin upp. Ísland er það ríki sem er með flest tilmæli til ríkja, innan jafningarýninnar sem vísað er til í skýrslunni, um LGBTI-málefni. Ísland er með flest tilmæli. Við höfum á þessu kjörtímabili lagt sérstaka áherslu, og það er komin sérstök stefna um það og sérstök skýrsla, á mannréttindamál í þróunarsamvinnu, nákvæmlega þær áherslur sem hv. þingmaður vísar til. Þannig að allt það sem hv. þingmaður nefndi höfum við gert.

Menn geta haft þá skoðun að við höfum getað nýtt tækifærið betur en ég hef ekki heyrt þá gagnrýni, þ.e. í þessa 18 mánuði. Það sem við fengum að heyra þegar við komum inn var að menn höfðu áhyggjur af því að við værum of lítil og þetta væri of skammur tími. En það er enginn sem talar um það lengur. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þá gagnrýni að við hefðum getað nýtt þetta betur. Auðvitað getum við alltaf gert betur. Ég er ekki að segja að við höfum náð fullkomnun, hvorki þarna né annars staðar. En ég tel hins vegar, virðulegur forseti, að það sé enginn vafi á frumkvæði Íslands þegar kemur t.d. að LGBTI-fólki (Forseti hringir.) og það hafi ekki farið fram hjá neinum og hefur því reyndar verið fagnað sérstaklega af OutRight, sem eru samtök sem hafa það sem sitt mál sérstaklega.