150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:42]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil taka sérstaklega undir lokaorðin. Um leið og við teljum að við séum búin að ná fullkomnun erum við komin út í skurð og lendum á mjög slæmum stað mjög hratt og þessi skýrsla er ekki að segja það. Sumt af því sem hv. þingmaður segir finnst mér hins vegar mjög ósanngjarnt, þótt ég get tekið undir mjög margt. Ég ætla ekki að leggja hv. þingmanni orð í munn en við getum bara sagt það þannig að loftslagsmál og umhverfismál er nokkuð sem við höfum lagt áherslu á í allri okkar utanríkisstefnu. Við höfum fjölmörg dæmi um það og þar höfum við sömuleiðis góða sögu að segja vegna þess að við höfum gengið á undan með góðu fordæmi, sérstaklega þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum. Við höfum lagt sérstaka áherslu á málefni hafsins. Við lítum á okkur, getum við sagt, sem gæslumenn hafsins. Það eru ekki allir sem þekkja hafið jafn vel og við og eiga jafn mikið undir því og við, og við leggjum sérstaka áherslu á það.

Ég er ekkert að segja að hv. þingmaður hafi verið að skamma þann sem hér stendur. Það er að frumkvæði þess sem hér stendur að við erum að ræða þetta núna. Það var enginn sem bað um þær umræður og mér ber engin skylda til að leggja þessa skýrslu fram. Ég hef haft frumkvæði að því og mun hafa frumkvæði að því að koma með skýrslur einmitt til að ræða þessi mál. Þegar við förum í ráðið byggjum við á skýrslunni sem hv. þingmaður vísar til og byggjum á þessari reynslu í áframhaldandi stefnumótun, þegar kemur að þessu sérstaklega. Ég vek þó athygli á því að við höfum líka sérstaklega tekið á mannréttindamálum í tengslum við þróunarmál eins og við höfum rætt áður.

Við eigum að ræða þessi mál hreinskilnislega, hvað betur megi fara. En ég tel að við séum á réttri leið og að við höfum stigið rétt skref.