150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég hvet hæstv. ráðherra til að gefa endilega fleiri skýrslur út, hann hefur auðvitað verið leiðandi í því að gera þessar skýrslur skemmtilegri og aðgengilegri. Á tímum aukins mynd- og táknlæsis þjóðarinnar er ólíkt skemmtilegra að blaða í þessu þegar það er líka fallegt áferðar. Við erum einfaldlega í þeirri stöðu að við munum ekki ná að komast í gegnum hlutina sjálf, einangruð á þessu landi. Allar þær stóru áskoranir sem við stöndum frammi fyrir krefjast gríðarlega mikils alþjóðlegs samstarfs. Við þurfum að styrkja utanríkisþjónustuna. Við þurfum að styrkja utanríkismálanefnd og við þurfum að styrkja umræðuna um utanríkismál í þinginu. Um það erum við hæstv. ráðherra greinilega sammála. En svo að ég ljúki því með því að nefna aftur loftslagsmálin þá er það auðvitað áhyggjuefni ef hægt hefur verið að matreiða hlutina með þeim hætti að það hlutfall sem trúir því að hamfarahlýnun sé af manna völd fari lækkandi. Við slíkum áróðri þurfum við að sporna. Allir vísindamenn eru á einu máli um að það erum við sem berum höfuðábyrgð, okkar neysla, okkar óhóf, getum við sagt, og skammsýni. Þess vegna er það sérstakt áhyggjuefni þegar þessar raddir heyrast annað slagið hér á þingi. Ég vona að við hæstv. ráðherra getum verið bandamenn í því að berjast gegn því.