150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta skýrslu og yfirferð í ræðu sinni þar sem hann fór yfir helstu atriði hennar. Ég vil líka segja það hér í upphafi að ég held að utanríkisþjónustan með hæstv. ráðherra í fararbroddi hafi sinnt þessu verkefni vel og er full ástæða til að taka það skýrt fram að hér held ég að hafi verið vel að verki staðið. Ég held líka að þátttaka okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sýni okkur svart á hvítu að við getum mjög vel tekið þátt í alþjóðasamstarfi og við höfum margt til málanna að leggja. Þegar við vöndum okkur, vöndum málatilbúnað, getum við haft áhrif og á okkur er hlustað. Það er auðvitað mjög gott veganesti vegna þess að alþjóðasamstarf á breiðum grundvelli verður æ mikilvægara og æ mikilvægara fyrir okkur að taka þar fullan þátt og gera okkur gildandi.

Áherslurnar í ráðinu af Íslands hálfu held ég að hafi verið skynsamlegar og ég held að það sé skynsamlegt að leggja áherslu á þau mál sem eru brýn í heiminum og þar sem pottur er brotinn, en ég held að líka sé skynsamlegt þegar menn gegna svona hlutverki að leggja áherslu á mál þar sem lönd hafa góða sögu að segja. Ég held að mál til að setja á oddinn hafi verið ágætlega valin. Og það er alltaf gott að geta talað um hluti og lagt til breytingar og sett fram málefnalega gagnrýni ef menn hafa góðan pall til að standa á, þ.e. að menn standi sig sjálfir vel á þeim sviðum. Ég held að við Íslendingar gerum það almennt þó að við séum auðvitað ekki fullkomin frekar en aðrir.

Við Íslendingar lögðum áherslu á jafnréttismál í þessu starfi og við gerum það svo sem víðar á þeim vettvangi þar sem við komum fram og er það vel. Við höfum náð ágætisárangri á því sviði sem við erum stolt af, náð tiltölulega langt í jöfnum rétti karla og kvenna, bæði í orði og á borði, þó að á borði vanti enn nokkuð upp á. Ég vil kannski nefna sérstaklega í því samhengi að við eigum enn við þann vanda að stríða almennt í samfélaginu að meta kvennastörf minna en hefðbundin karlastörf og þar er verkefni sem þarf að vinna og þar eigum við að ganga á undan með góðu fordæmi.

Eitt verkefni sem kemur vissulega fram á verkefnalista í skýrslunni er réttindi barna. Ég held að við stöndum okkur þar líka að mörgu leyti mjög vel og höfum góða sögu að segja en við gætum efalaust gert betur þannig að við hefðum sterkari rödd á því sviði. Ég held t.d. að það væri við hæfi að við Íslendingar, ef við sækjumst eftir frekari þátttöku í mannréttindaráðinu og svo sem á öðrum vettvangi, sem ég held að sé skynsamlegt að gera, ættum að taka upp málefni barna með sterkari hætti. Ég held að við ættum líka að taka upp stöðu flóttafólks og hælisleitenda og reyna að gera okkur gildandi og leggja gott til málanna á þeim vettvangi í alþjóðasamstarfi. Þar stöndum við okkur að sumu leyti ágætlega en að öðru leyti er vissulega rúm fyrir umbætur og að við stöndum okkur betur. Þá held ég að við ættum einmitt að leggja sérstaka áherslu á það að tryggja að réttarstaða og réttindi barna á flótta séu hér til fyrirmyndar.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur verið duglegur talsmaður okkar í ýmsum málefnum á erlendum vettvangi eins og þessi ágæta skýrsla sýnir og hann þorir alveg að segja mönnum til syndanna þar sem það á við og það er gott. Því held ég að það væri verðugt verkefni að hann talaði fyrir þessum málum á erlendum vettvangi en ekki síður á innlendum vettvangi þannig að stefna stjórnvalda hér yrði til fyrirmyndar á þessu sviði. Ég er viss um að hæstv. ráðherra mun ekki liggja á liði sínu í þeim efnum.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Almennt talað er ég nokkuð sáttur við framgang hæstv. ráðherra og utanríkisþjónustunnar á þessum vettvangi. Auðvitað má alltaf finna atriði sem hefðu hugsanlega getað farið betur, menn hefðu átt að taka upp önnur málefni og beita sér harðar gagnvart tilteknum þjóðum o.s.frv. En heilt yfir held ég að hæstv. utanríkisráðherra fái ágæta einkunn fyrir frammistöðu sína og utanríkisþjónustunnar allrar í þessum málum og ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar.