150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:06]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma hér og ræða skýrslu um setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Eins og kunnugt er og fram hefur komið í umræðunni lauk um áramótin 18 mánaða langri setu Íslands í mannréttindaráðinu. Þetta var fyrsta seta kjörins fulltrúa frá Íslandi og það var í senn áskorun og lærdómsríkt ferli sem ég held að við getum verið sammála um að heppnaðist vel.

Fullyrða má að kosning Íslands þann 13. júlí 2018 hafi markað tímamót og þetta verkefni er tvímælalaust eitt það veigamesta sem Ísland hefur tekið að sér og gegnt á alþjóðavettvangi. Þess vegna er full ástæða til þess að við ræðum verkefnið hér í þingsal og förum yfir þá skýrslu sem var tekin saman til að leggja mat á hvernig til tókst við lok kjörtímabilsins í mannréttindaráðinu. Verkefnin voru vandasöm en ljóst er af skýrslunni að lítið ríki eins og Ísland og utanríkisþjónusta þess er fullfært um að takast á við verkefni af slíkri stærðargráðu. Það er mikilvægt að markmiðin og áherslurnar séu vel skilgreindar fyrir fram eins og gert var. Mannréttindi eru ekki sjálfsögð og verða aldrei sjálfsögð. Þau hafa alltaf verið hluti af íslenskri utanríkisstefnu og þurfa að vera það áfram. Þau eru stöðugt viðfangsefni samfélaga og eðli mannréttinda er einfaldlega þannig að þegar einum áfanga í úrbótum er náð þá birtist ný áskorun. Það þarf stöðugt að vera á vaktinni.

Áhersluatriði Íslands í ráðinu voru m.a. að tala fyrir jafnrétti kynjanna, réttindum hinsegin fólks, málefnum barna, setja tengsl mannréttinda og umhverfismála í öndvegi og beita sér fyrir umbótum í starfi ráðsins, allt brýn mál sem við höfum náð árangri í og þess vegna skynsamlegt að leggja áherslu á í vinnunni.

Mér finnst sérstaklega áhugavert, þegar farið er yfir skýrsluna, að rýna í fylgiskjal 2 sem er yfirlit yfir aðgerðir sem settar voru fram til að fylgja eftir skuldbindingum Íslands í tengslum við setuna í mannréttindaráðinu. Þar er yfirlit yfir aðgerðirnar og mat á því hvernig til tókst. Mig langar að nota tímann svolítið til þess að skoða þessar aðgerðir sérstaklega. Fyrsti hlutinn snýr að þátttökunni almennt en hinar aðgerðirnar snúa að áhersluatriðunum fimm.

Ég ætla að byrja á því sem er aftast í þessari samantekt og er áhrif umhverfisbreytinga, þar með talið loftslagsbreytinga, á mannréttindi. Þarna held ég að sé tækifæri til að gera hugsanlega enn betur næst. Þarna voru þrjár aðgerðir undir sem tókst að uppfylla en ég held að þarna séu mikil tækifæri fyrir Ísland til að gera betur í samvinnu við ýmis verkefni sem nú eru unnin á vegum Sameinuðu þjóðanna, svo sem eins og samninginn gegn eyðimerkurmyndun. Við höfum vissulega sinnt verkefnum þar í gegnum Landgræðsluskólann. Endurheimt lands og uppbygging landgæða er mannréttindamál, mjög mikilvægt mannréttindamál. Það er grundvöllur matvælaframleiðslu í mörgum löndum að aðgangur sé að jarðvegi og gróðri þar sem hægt er að rækta matvæli og næg matvæli eru náttúrlega grundvallarmannréttindi. Endurheimt landgæða og umhverfismál eru líka hluti af mannréttindum þeirra sem nú eru á flótta í heiminum. Tap landgæða er ein af stærstu ástæðunum fyrir því að fólk flýr heimili sín, beint og óbeint, og svo að sjálfsögðu er þetta mjög mikilvægt loftslagsmál. Þarna er málaflokkur sem við Íslendingar eigum að setja mikinn fókus á.

Síðan aðeins að aðgerðum sem falla undir jafnrétti og valdeflingu kvenna. Þar held ég að við séum stöðugt að leggja mikið af mörkum í alþjóðasamfélaginu og eigum að halda því áfram. Ein aðgerðin er að kynna íslenska jafnlaunastaðalinn og hvetja önnur ríki til að grípa til aðgerða til að tryggja jöfn laun kynjanna. Meðal annars var samþykkt undir þeirri aðgerð að 18. september yrði hér eftir þekktur sem dagur baráttunnar fyrir jöfnum launum í heiminum. Stundum finnst manni svona dagar vera léttvægir en þegar upp er staðið hafa ýmsir dagar sem hafa verið helgaðir tilteknum málum skipt ótrúlega miklu máli í baráttu fyrir jafnrétti og mannréttindum.

Síðan stoppaði ég við aðgerð sem í mínum huga er einhvern veginn svo sjálfsögð að það ætti ekki að þurfa að berjast fyrir henni á alþjóðavettvangi, en það er að stuðla að því að jafnréttismál séu tekin upp sem víðast með áherslu á kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi. Þar þurfti að berjast fyrir því að texti um kynfræðslu væri ekki fjarlægður úr tillögunni sem fyrir lá. Þetta er eitt af þessum málum sem okkur á Íslandi finnst svo sjálfsagt en skiptir einmitt máli að við berjumst fyrir af því að okkur finnst það svo sjálfsögð réttindi að allir hljóti kynfræðslu hvar sem þeir búa í heiminum og að kyn- og frjósemisheilbrigði og þau réttindi sem því fylgja séu virt. Virðing fyrir réttindum LGBTI-einstaklinga, stuðningur við réttindabaráttu hinsegin fólks, er mjög mikilvægt verkefni og þar undir eru þrjár aðgerðir sem allar skipta máli. Það er að tala skýrt og skorinort um málefnin, styðja við starf Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði og auka samstarf við önnur ríki um réttindi hinsegin fólks og þar eru mikil tækifæri.

Að lokum langar mig að koma aðeins inn á spurningarnar sem lágu til grundvallar umræðunni, hvert framhaldið eigi að vera. Ég tel skýrsluna sýna að við eigum að hugsa til þess að halda áfram á þessum vettvangi. Við eigum að láta til okkar taka þar eftir þeim leiðum sem opnast hverju sinni og nota þau tækifæri sem gefast. Mér sýnist líka einboðið að við eigum að styrkja samstarfið við Norðurlöndin um að koma rödd Norðurlandanna betur á framfæri að jafnaði. Við réðum vel við þetta verkefni og þarna er góður vettvangur til að láta okkar rödd heyrast til þess að koma þeim málefnum á framfæri þar sem við höfum góða sögu að segja, þar sem við höfum miklu að miðla. Þetta er leið sem hentar smáríkjum eins og Íslandi. Þó að mannréttindaráðið sé ekki fullkomið frekar en aðrar alþjóðastofnanir og ekki óumdeilt er það samt sem áður helsti vettvangur hreinskiptinna samræðna um mannréttindamál á heimsvísu og er því afskaplega mikilvægur vettvangur. Regluleg seta í ráðinu er svo auðvitað hvatning til okkar sjálfra að gera stöðugt betur í mannréttindamálum innan lands.