150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég veit ekki hvort ég næ að fylgja því alla leið en ætla alla vega að byrja. Umhverfismál eru risastórt verkefni. Síðan er hægt að búta það niður í líffræðilegan fjölbreytileika, loftslagsmál, vernd vistgerða, en ef við ætlum að tryggja heilbrigt umhverfi fyrir alla á jörðinni, sem er grundvöllur mannréttinda hvers og eins, þarf að huga að þessu öllu. Líffræðilegur fjölbreytileiki í einni vistgerð getur verið grundvöllur að því að hægt er að taka ræktanlegt land þar við hliðina til matvælaframleiðslu og tryggja það. Þess vegna er mjög mikilvægt að við setjum okkur þau viðmið, og að einhverju leyti eru þau í stjórnarskrá, að einhverju leyti vantar upp á, um sameiginlegt eignarhald auðlinda og um aðgang að og virðingu fyrir þeirri náttúru sem við þurfum á að halda til þess að tryggja lífvænleika og mannréttindi. Ég get tekið undir það.

En aðeins áfram með þetta: Af hverju erum við ekki sem samfélag þjóðanna að hugsa um það hvernig við getum minnkað eyðimerkur heimsins? Tökum Sahara, við sjáum sand fjúka frá Sahara alveg hingað til okkar. Það var um páskana í fyrra eða 2018, ég man það ekki alveg, sem við fengum sand frá Sahara hingað. Ef við gætum ræktað upp þó ekki væri nema lítið brot, endurheimt landgæði smátt og smátt, gætum við breytt lífsgæðum hjá þvílíkum fjölda fólks, ef farið væri í markvissa samvinnu um þetta verkefni.