150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta vakti einmitt athygli mína m.a. út af þingmáli sem við erum með í umhverfis- og samgöngunefnd um kæruheimild samtaka sem láta sig varða vernd náttúru, líffræðilegan fjölbreytileika og ýmislegt svoleiðis. Í augnablikinu erum við með pínu skekkta mynd þar sem framkvæmdaraðilar og fleiri eru aðilar máls og geta kært niðurstöður úrskurðarnefndar umhverfismála áfram til dómstóla en samtök sem setja sér skyldur varðandi vernd náttúrunnar geta það ekki. Ég sé þarna ákveðið misræmi í þessum réttindamálum sem við erum einmitt að ræða núna.

Hitt sem mig langaði til að tala um er, eins og ég talaði um fyrir nokkrum vikum, þriðja valfrjálsa bókun barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hæstv. barnamálaráðherra sagðist vera sammála því að við ættum að klára það skref, að innleiða hana, enda erum við með fulltrúa í barnaréttarnefnd eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom að í ræðu sinni. Við erum með fulltrúa í þeirri nefnd en leyfum samt ekki Íslendingum að fara með mál sín fyrir nefndina. Ég velti fyrir mér hvort þingmaður Framsóknarflokksins er sammála ráðherra sínum um að það væri eðlilegt að við myndum taka upp þann möguleika fyrir Íslendinga að geta sótt sér þetta ytra aðhald sem við viljum að sjálfsögðu hafa. Ef við viljum vera stimpluð sem góð í mannréttindum viljum við að aðrir utan frá geti horft til okkar og séð að við stöndum okkur vel, m.a. með því að leyfa utanaðkomandi aðilum að vakta það að það sé allt í lagi samkvæmt öllum alþjóðlegum stöðlum.