150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem við ræðum hér. Ég er ein af þeim þingmönnum sem fagna hverju tækifæri sem gefst til að ræða utanríkismál í þessum sal. Ég hygg að við gerum það of sjaldan og því er áhugavert að sjá hversu margir hafa tekið þátt í umræðunni hér í dag. Ég er sammála því að seta okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sé tvímælalaust eitt veigamesta hlutverk sem Ísland hefur tekið að sér á alþjóðavettvangi. Mér finnst nokkuð vel farið yfir þau mál sem þar hafa verið til umfjöllunar í þessari skýrslu og mér finnst gott að sjá í niðurstöðum hennar að smáríki eins og Ísland geti haft afgerandi áhrif. Ég held að við höfum svo sannarlega sannað það með þessari stuttu en skorinorðu setu okkar í ráðinu.

Ég þakkaði hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og mig langar líka að þakka fyrir það að við höfum brugðist svona hratt við og tekið sætið sem þarna losnaði þegar Bandaríkjamenn báðust lausnar. En ég vil ekki síst þakka okkar frábæra fólki í utanríkisþjónustunni sem kom að þessu verkefni. Það sýnir svo sannarlega hve fljótt fólkið okkar er að bregðast við, þrátt fyrir að utanríkisþjónusta Íslands sé fámenn enda erum við lítið land, og hve tilbúið það er til að vinna undir álagi og gera hlutina hratt og vel. Öll þau sem komið hafa að þessu eiga miklar þakkir skildar.

Í fjölmiðlaumræðunni ber hæst ályktanir um Sádi-Arabíu og Filippseyjar. En mér fannst líka mjög áhugavert að lesa hér í skýrslunni þegar verið var að fjalla um 40. fundarlotuna, þar sem Ísland lagði lóð á vogarskálarnar hvað varðar samþykki tveggja mikilvægra ályktana. Önnur sneri að verndun baráttufólks fyrir mannréttindum sem tengja má umhverfismálum og hin fjallaði um konur og stúlkur í íþróttum, en með henni var réttur til að ráða yfir eigin líkama áréttaður í mannréttindaráðinu, að einstaklingar eigi ekki að þurfa að undirgangast ónauðsynlegar læknisaðgerðir og íhlutun á líkama sínum. Það er eitthvað sem við höfum rætt svolítið í þessum sal. Með þessu var viðurkennd í fyrsta skipti sú mismunun sem fólk með óhefðbundin kyneinkenni verður fyrir. Ísland studdi þessa sögulegu ályktun sem Suður-Afríka bar upp með virkum hætti og hjálpaði til við að vinna henni brautargengi og stuðningi Íslands við að tryggja afgreiðslu ályktunarinnar var sérstaklega fagnað af ILGA, sem eru helstu regnhlífarsamtök hinsegin fólks á heimsvísu. Ég er stolt af því að við Íslendingar töluðum bæði í mannréttindaráðinu fyrir stuðningi við þessa ályktun og reyndar fleiri og í ræðum ráðherra og embættismanna ávallt fyrir mannréttindum og hagsmunum hinsegin fólks. Ég er stolt af því að við höfum markað okkur þá sérstöðu.

Það er ýmislegt áhugavert sem kemur fram í þessari skýrslu og hægt er að draga lærdóm af veru okkar í mannréttindaráðinu. Mér finnst gaman að því að við fullvissum okkur enn og aftur um að mannréttindi séu hornsteinn í utanríkisstefnu okkar. Það er alveg ljóst að Ísland hefur góða sögu að segja og ýmislegt fram að færa og við eigum að sjálfsögðu að segja þá sögu. Það er líka ljóst að Ísland og íslenska utanríkisþjónustan réð fyllilega við verkefni af þessum toga og að smáríki getur haft afgerandi áhrif standi vilji til þess. Ég verð að viðurkenna að það hafði farið fram hjá mér að skoðanakönnun sem utanríkisráðuneytið gekkst fyrir um mitt ár 2019 sýndi að þátttaka Íslands í störfum mannréttindaráðsins naut stuðnings 88,8% og rúm 70% töldu að seta Íslands í mannréttindaráðinu gæti haft jákvæð áhrif á þróun mannréttindamála á heimsvísu. Ég verð að viðurkenna að ég hef upplifað mjög breiðan pólitískan stuðning við veru okkar í mannréttindaráðinu en áttaði mig ekki á því að almenningur áttaði sig jafn vel á mikilvægi þess að við tækjum þarna sæti og mér finnst mjög gott að heyra það.

Ég fékk tækifæri til að sitja ráðstefnu sem haldin var uppi í háskóla í desember á degi mannréttinda. Það snerti mig mjög mikið að Lina al-Hathloul — ég kann ekki alveg að bera nafnið hennar fram, virðulegur forseti — var sérstakur gestur og sagði sögu systur sinnar, sem situr í fangelsi í Sádi-Arabíu fyrir að hafa keyrt bíl. Systir hennar er femínískur aktívisti. Þrátt fyrir að Sádi-Arabíu hafi verið síðasta landið á þessari jörð til að viðurkenna þau sjálfsögðu réttindi að konur geti jafnt sem karlar keyrt bíl þá situr systir hennar enn í fangelsi. Það eru þannig sögur sem snerta líka svolítið við manni. Þá áttar maður sig á því, þegar maður upplifði það þakklæti sem skein af henni, hversu miklu máli það skiptir að smáríkið Ísland hafi tekið sæti þarna og þorað að standa að sjálfsögðum mannréttindum og þorað að styðja ályktanir sem öðrum ríkjum, sem kannski eru mjög líkt þenkjandi og við, finnst erfiðara að setja fram. Þá er gott til þess að hugsa að við gerðum nákvæmlega það.

Ég hygg að flestir sem sitja hér á þingi og fjalla eitthvað um utanríkismál hafi jafnvel fengið einhverjar ákúrur á sig þegar við stóðum að samþykkt ályktunar um Filippseyjar. Ég fékk það alla vega. Ég leyfði mér að svara ágætisvini mínum sem býr á Filippseyjum þegar hann gagnrýndi þessa ályktun og fékk yfir mig alls konar skilaboð og sendingar frá filippseyskum aðilum og það fullvissaði mig um að við værum að gera eitthvað rétt í þessum málum. En eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á hér áðan í ræðu sinni er sannarlega af nægu að taka þegar kemur að mannréttindamálum. Ef ég skildi hv. þingmann rétt var hann kannski að gagnrýna að Filippseyjar hefðu orðið fyrir valinu. En mér finnst full ástæða til þess að mannréttindabrot þeirra þjóða sem sitja í mannréttindaráðinu, og eiga þar af leiðandi að sýna gott fordæmi, séu tekin upp. En ég geti tekið undir yfirferð hv. þingmanns þegar kemur að mannréttindabrotum í öðrum ríkjum. Það sýnir bara hversu mikilvægt mannréttindaráðið er og hversu mikilvægt það er að í allri okkar utanríkisþjónustu tölum við fyrir mannréttindum. Ég er stolt af því að við höfum tekið þann slag. Ég er líka stolt af því að við tölum í okkar utanríkisstefnu fyrir kvenréttindum og fyrir umhverfismálum, mér finnst það góð utanríkisstefna.

Í skýrslunni er líka spurt hvort ástæða sé til þess að Ísland gefi aftur kost á sér til setu í mannréttindaráðinu og því hefur m.a. verið velt upp á fundi í hv. utanríkismálanefnd. Þetta kom upp með skömmum fyrirvara og var stutt seta. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er kannski ekki alveg tilbúin til að svara þeirri spurningu hér og nú, en mér finnst ekki að við eigum að afskrifa það, alls ekki. Við megum samt ekki gleyma því að það að vera fullgildur aðili að mannréttindaráðinu er ekki forsenda þess að ríki eins og Ísland láti að sér kveða á þessum vettvangi og að sjálfsögðu er ástæða til þess, og ég treysti því, að hæstv. utanríkisráðherra, ríkisstjórnin öll og allir hv. þingmenn sem taka þátt í alþjóðastarfi noti tækifærið í hvert skipti sem við erum á alþjóðavettvangi og taki upp mannréttindamál, styðji góðar ályktanir er lúta að mannréttindum og haldi þessu máli til haga.

Ég get líka tekið undir það, sem kemur fram í skýrslunni, að ég tel ekki ástæðu til þess að við förum í einhvers konar kosningabaráttu um sæti í mannréttindaráðinu. En mér finnst full ástæða til þess að ríki eins og Ísland segi sína góðu sögu, noti rödd sína og tali ávallt fyrir mannréttindum á alþjóðavettvangi. Mér finnst seta í mannréttindaráðinu að nýju árið 2025 eða þar um bil vel geta komið til greina en ég tek undir með hæstv. ráðherra að þá er auðvitað full ástæða til þess að um það ríki mikil pólitísk sátt. Þá erum við að taka ákvarðanir fram í tímann fyrir fólk sem á eftir að kjósa til að sitja hér í þessum sal.