150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við sem sitjum í utanríkismálanefnd viljum gjarnan leggja orð í belg, sennilega mörg hver. Fyrst af öllu ber að þakka skýrsluna sem við ræðum, hún er vönduð og fróðleg. Það er líka hollt að hugleiða gildi og mikilvægi mannréttinda því að það er stundum sagt að mannréttindi séu grunnur mennskunnar í veröldinni og það er margt til í því. Við þurfum bæði að halda einhvers konar varðstöðu um mannréttindin en við þurfum líka að knýja á um breytingar til bóta. Ef maður horfir yfir heiminn heilt yfir, kannski hálfa öld eða svo, vitum við öll að það hefur töluvert áunnist. En það er enn mjög langt í land ansi víða. Gömul kjörorð úr lýðræðisbyltingunni í Evrópu sem hljóða upp á frelsi, jafnrétti og bræðralag eða samstöðu hafa smitast inn í norræna módelið og við hömpum því gjarnan að þau ríki séu með þeim skárri í heiminum að búa í. Þau minna okkur á það að flest ríki, líka norrænu ríkin, eru ekki með fullkomlega hreinan skjöld þegar kemur að mannréttindum. Það er hægt að horfa aðeins aftur í tímann. Við vorum að ræða um réttindi hinsegin fólks og við þurfum ekki að fara mjög langt aftur á bak í íslenskri sögu til að sjá hvernig framkoma við hinsegin fólk var. Við þurfum alltaf, hvort sem við erum Norðmenn eða Íslendingar, að muna að það eru mannréttindi hér sem við þurfum að bæta og slípa og auka við á einum og öðrum sviðum. Það getur vel verið að jafnvel rétturinn til matar eða einhver grunnatriði séu ekki í fullkomnu lagi og verða seint í fullkomnu lagi, en við getum bætt úr.

Árangur Íslands í 18 mánaða setu er bæði eftirtektarverður og í raun þakkarverður í heild. Það hefur komið fram hjá hverjum ræðumanni á fætur öðrum og ég tek undir það. Við ræddum þetta í utanríkismálanefnd fyrir örfáum dögum og þar kom nokkurn veginn það sama fram, nefndarmenn voru heilt yfir ánægðir með framgöngu Íslands, jafn skyndilega og hún kom upp á. Þar kom líka fram að við verðum að muna eftir annarri stofnun sem við erum þátttakendur í, sem er Evrópuráðið. Þar er mannréttindastarf Íslands uppi af og til og það gegnir sínu skýra hlutverki. Við höfum verið þar á góðum stað.

Það er af nægu að taka, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi. Við höfum verið að beita okkur í málefnum Ísraels og Palestínu á réttan hátt sem hluta af utanríkisstefnu Íslands. Við höfum verið að agnúast út í Filippseyjar og þó að það sé ekki land sem er hæst á listanum þá kom í ljós að okkar afskipti höfðu veruleg áhrif. Það má segja sem svo að það er ekki alltaf aðalatriðið að ganga að þeim sem er frekastur, stærstur og verstur, það þarf líka að hirta hina af og til sem standa aðeins neðar í goggunarröðinni þegar kemur að mannréttindabrotum í heiminum. Það sama gildir um Sádi-Arabíu og það er búið að nefna hér Venesúela. Ég myndi vilja bæta við ríkjum eins og Brasilíu vegna umhverfismála og framkomu sumra Brasilíubúa, einkum stjórnvalda, gegn frumbyggjum í Brasilíu. Eitt smáríki hefur stundum verið að gauka að okkur tölvupóstum, fulltrúar úr smáríkinu Barein, þar sem mannréttindabrot eru algeng. Það er af nógu að taka og við getum snúið okkur nær, jafnvel til Evrópu, þar sem bæði er verið að brjóta mannréttindi, viljum við telja miðað við okkar mannréttindi, hvað réttarfar og frelsi fjölmiðla snertir og ýmis almenn lýðræðisréttindi. Eitt af þeim ríkjum sem okkur hefur orðið tíðrætt um í utanríkismálanefnd í þessu sambandi er Tyrkland. Ég hef sjálfur verulegar áhyggjur af framferði Tyrklands, líka vegna þess að það er eitt af bandalagsríkjum okkar og tekur þátt í margs konar evrópsku samstarfi. Það er komið út á ystu brún í sumum málum að mati rétt þenkjandi fólks.

Menn hafa rætt um ávinning í mannréttindamálum og hann getur verið margs konar en það er mjög mikilvægt að muna eftir því að hann er í báðar áttir. Það er ávinningur Íslands og svo er ávinningur þess sem við erum að aðstoða. Mér hefur stundum fundist eins og menn séu of uppteknir af ávinningi Íslands en gleymi því að við höfum áhrif til góðs.

Það er líka rætt um áhættu af því að trana sér fram og þora. Það er jú mat flestra að þegar kemur að mannréttindamálum er mjög erfitt að refsa þeim sem bendir á það augljósa atriði að keisarinn er nakinn. Ég held að áhætta ætti aldrei að vera okkur sérstakur fjötur um fót nema kannski í undantekningartilvikum. Ef við höfum rétta afstöðu bæði til ávinnings og áhættu hef ég ekki áhyggjur af framtíðinni. Og hver er hún? Hvað ber okkur að gera? Það hefur þá komið fram að fyrsta skrefið gæti verið að fara ekki út í einhvers konar kosningabaráttu eða framboð heldur nota hinn norræna hóp þar sem seta í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna getur gengið á milli ríkja og grípa daginn nú og lýsa sem fyrst yfir áhuga okkar á að halda þessu starfi áfram og sjá hvort val milli Noregs og Íslands geti ekki fallið þannig að Ísland verði fyrir valinu. Ef ekki þá höfum við síðari tækifæri, hvort sem það verður með svipuðum hætti eða með því að við leggjum út í sennilega dýra baráttu smáríkis til að koma okkur að á þessum stað. En það getur orðið ansi snúið.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það en koma aðeins í lokin að vangaveltum um stefnumótun fyrir starf í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Auðvitað kom þetta nokkuð snöggt til, okkar seta. Vel tókst til en ég held að það þurfi að ræða betur, á þingi og annars staðar, hvenær og hvernig við metum það að vera frumkvæðisaðili að því að taka upp mannréttindabrot í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og þess vegna annars staðar. Við þurfum að meta hvenær við erum stuðningsaðili og hvaða rök eða kríteríur, eins og menn segja gjarnan, við notum þegar við erum að vinna okkur áfram á þennan máta. Og hvað veljum við og hvernig? Er það alvarleiki brotanna, eru það snöggar uppákomur? Eru það mannréttindabrot sem hafa staðið í langan tíma? Er það eitthvað sem stendur okkur nærri, t.d. jafnrétti í kynjamálum eða annað slíkt? Það eru mörg rök, ekki bara ein, sem koma til og það er ágætt að slípa þessa stefnumótun til með umræðum hvort sem er á þingi eða annars staðar.

Heilt yfir tel ég að Ísland hafi áfram hlutverki að gegna í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og okkur ber að sinna því sem allra best og koma okkur að þar aftur. En ég vil þó nota allra síðustu orðin hér til að minna á það vaxandi og góða samstarf sem verið hefur milli hæstv. ráðherra og utanríkismálanefndar. Það er einn af hornsteinunum í starfi Alþingis annars vegar og utanríkisráðuneytisins hins vegar og svo hitt, sem er gömul mantra, sem er utanríkisþjónustan. Hún þarf að vera öflug og vel sniðin. Gagnrýni á hana er ákaflega algeng. Ég hef verið stuðningsmaður þess að hún sé vel mönnuð, fái nægt fjármagn. Það hefur stundum skort á það, einkum í rekstri, en síðast en ekki síst að utanríkisstefna og skipulagið sé bæði skilvirkt og í þágu fólks, flests fólks í heiminum.