störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.
Herra forseti. Við ræðum hér þessa mikilvægu skýrslu um Ísland í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Ég hlýt að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og hans framsögu hér. Við Íslendingar leggjum áherslu á mannréttindi, þau eru snar og sterkur þáttur í okkar samfélagi. Þar á meðal leggjum við höfuðáherslu á jöfn réttindi kynjanna og réttindi hinsegin fólks. En þótt við lítum svo á að við höfum náð því að standa framarlega í heiminum á sviði mannréttinda megum við ekki festast í sjálfumgleði og sjálfhælni þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki. Við megum aldrei sofna á verðinum. Mannréttindi eru verkefni sem aldrei verður leyst til fulls. Við þurfum að vera vakandi í þessum efnum og leitast við að gera æ betur.
Í okkar samfélagi líðum við ekki að fólk sæti misrétti af neinu tagi. Slíkt má ekki þrífast. En mér verður hugsað til ýmissa nágrannalanda þar sem borið hefur á andúð á gyðingum. Svo að dæmi sé nefnt var til þess tekið við nýafstaðnar þingkosningar í Bretlandi í desember sl. að gyðingaandúð á vettvangi Verkamannaflokksins þar í landi stæði þeim flokki að einhverju leyti fyrir þrifum, vegna þess hversu rammt kvæði að þessum þætti í honum. Þetta er býsna nálægt okkur og sama má segja um ýmis lönd í Evrópu þar sem fregnir herma að andúð af þessu tagi fari vaxandi. Það er auðvitað mjög miður. Ég vona að við verðum laus við ófögnuð af þessu tagi.
Í hugann, herra forseti, koma tvö bandalagsríki okkar í Atlantshafsbandalaginu. Ég leyfi mér að nefna Tyrkland og Spán. Í Tyrklandi sitja blaðamenn og dómarar þúsundum saman í fangelsi fyrir meintan skort á hollustu við stjórnvöld. Á Spáni hafa fallið þungir fangelsisdómar yfir stjórnmálamönnum fyrir að fylgja eftir sannfæringu sinni um sjálfstæði Katalóníu. Þar er ástandið svo alvarlegt að umræddir stjórnmálamenn sýnast ekki eiga neina möguleika á réttlátri málsmeðferð. Þessir fangelsisdómar og fangelsun þessara manna sýnist vera í boði hæstaréttar þannig að þessir menn búa við skerðingu á mannréttindum sem er með öllu óþolandi. Við hljótum að beita öllum okkar þunga gagnvart bandalagsríkjum okkar og reyndar er þannig ástatt um Spán að hann er ekki bara bandalagsríki okkar í Atlantshafsbandalaginu heldur mikilvægt samstarfsríki okkar á Evrópska efnahagssvæðinu.
Herra forseti. Ég tel, eftir að hafa kynnt mér skýrslu hæstv. ráðherra og hans ráðuneytis, að við getum verið stolt af árangri okkar í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og almennt af utanríkisþjónustu landsins. Auðvitað er það svo að það er matsatriði hvaða verkefni eru sett í forgang. Hæstv. ráðherra hefur fjallað hér um Filippseyjar og Sádi-Arabíu, mjög mikilvæg verkefni að sönnu. En þessi vaxandi gyðingaandúð í Evrópu, og þar á meðal í ríkjum sem eru nálægt okkur, er líka málefni sem kallar á athygli. Sömuleiðis vekur athygli tafla í skýrslunni þar sem fjallað er um hvaða lönd hafa oftast setið í mannréttindaráðinu. Meðal þeirra landa sem oftast hafa setið þar eru lönd þar sem réttindi samkynhneigðra eru algerlega virt vettergis og þeir þurfa að þola þungar kárínur ef til þeirra næst og þarf ekki að rekja það. Ég staldra hér við ríki eins og Katar, á bls. 36, Sádi-Arabíu, Barein. Þetta eru illræmd ríki þegar kemur að málefnum samkynhneigðs fólks, illræmd. Stefna þeirra og framganga er forkastanleg og fordæmanleg.
Herra forseti. Ég vil undir lokin nefna sem dæmi um mikilvægi utanríkisþjónustunnar, og árétta um leið nauðsyn þess að hún sé á hverjum tíma rekin með eins hagkvæmum hætti og nokkur kostur er, störf í sendiráði okkar í Kaupmannahöfn á fyrri hluta liðinnar aldar. Glögga og áhugaverða mynd af þessum tíma má lesa í bókinni Frá Hafnarstjórn til lýðveldis eftir Jón Krabbe eins og hæstv. ráðherra nefnir hér. Ég hlýt að nefna það að Jón Krabbe var dóttursonur Jóns Guðmundssonar, ritstjóra Þjóðólfs, alþingismanns til margra ára. Jón Guðmundsson var eins og við vitum nánasti samstarfsmaður Jóns Sigurðssonar forseta. Fyrst ég er búinn að nefna þessa menn er gaman að nefna það, af því að við erum líka farin að nálgast lok þessarar umræðu, að Jón Krabbe var skírður í höfuðið á þeim Jónum báðum, Jóni Guðmundssyni afa sínum og Jóni forseta, að þeim báðum viðstöddum. Við höfum hér fyrir utan þingsalinn málverk af Jóni Guðmundssyni og það er ljúft að minnast þessara ágætu manna. Í bók Jóns Krabbe sem átti íslenska móður, Kristínu Jónsdóttur, og danskan föður sem var læknir og vísindamaður — kom hingað til lands á 19. öld vegna sullaveiki sem geisaði á þeim tíma, kom hingað til vísindastarfa — má lesa um samskipti íslenskra stjórnvalda og dönsku ríkisstjórnarinnar og konungs ekki síst með milligöngu og atbeina sendiráðs okkar í Kaupmannahöfn. Þar starfaði Jón Krabbe um langan aldur, lengst af sem chargé d'affaires, eins og það heitir á máli utanríkisþjónustunnar, en sendiherra til að mynda í forföllum sendiherrans Sveinbjörns Björnssonar, síðar forseta Íslands. Þá hef ég nefnt þá tvo menn, Jón Krabbe og Svein Björnsson, sem voru brautryðjendur í íslenskri utanríkisþjónustu. Fyrir þá sem þar starfa nú og á hverjum tíma eru þeir glæsileg fyrirmynd.
Ég ítreka þakkir mínar til ráðherra fyrir hans skýrslu og þakka áhugaverðar umræður.