störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.
Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði hér um stefnu VG og að þora að gagnrýna sem ég tek heils hugar undir, alla vega seinni hlutann. Kannski ekki alveg eins mikið um stefnuna, það er pólitískt, allt annað mál. Það vekur athygli mína að eftir því sem ég best heyrði var talað um ýmis mannréttindamál í ræðu hv. þingmanns. Að sjálfsögðu ekki allt, það nær ekki yfir allt. Það er dálítið fjölbreytt, mannréttindi eru margs konar. En mig langaði til að spyrja sérstaklega um tjáningarfrelsi. Þá erum við með ákveðið vandamál hér á Íslandi ef við förum aðeins heim og þorum að gagnrýna hlutina hér heima fyrst við erum að gagnrýna mál sem varða setu okkar í mannréttindaráðinu. Nú hafa dómar fallið hjá Mannréttindadómstóli Evrópu hvað varðar tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks, sex dómar á móti ríkinu og tveir með á tímabilinu 2012–2017. Það bendir til þess að við tökum greinilega skringilega á tjáningarfrelsismálum hér á Íslandi og kannski væri þörf á bragarbót þar á, ef maður á að þora að gagnrýna.
Í því samhengi langar mig til að spyrja hv. þingmann um sannleiksgildi ummæla og hvaða máli það skiptir þegar kemur að því að dæma um það hvort ummæli sem falla heyri undir tjáningarfrelsi eða ekki. Samkvæmt öllum málsmeðferðarreglum þarf að taka tillit til þess hvort viðkomandi sé að segja satt eða ekki, hvort um tjáningarfrelsismál er að ræða eða meiðyrði. Ef hv. þingmaður gæti fjallað um sannleiksgildi ummæla í þessu tilviki, af því að þetta varðar tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks og tilvitnanir sem það hefur notað, það skiptir miklu máli hvað þessi mál varðar.