störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, við höfum búið við þetta, við höfum því miður fengið á okkur dóma frá Mannréttindadómstólnum sem eru ekki ríkinu í hag. Ég hef alltaf staðið með því að fjölmiðlar eigi að hafa töluvert frelsi þegar kemur að tjáningu og ég tek undir það sem áður var nefnt með fjölmiðlabannið hjá ákveðnum fjölmiðli, það hefði mér ekki fundist átt að standa á þeim tíma sem það stóð og ég held að þetta eigi að vera víðara frekar en þrengra.
Varðandi sannleiksgildi ummæla þá er það örugglega alltaf snúið. Auðvitað verður að meta það í hverju tilviki fyrir sig, eins og hv. þingmaður veit kannski. Lögin og lögfræðiskilningur er gjarnan þannig að þegar við erum að fást við það hvort við teljum eitthvað vera meiðyrði eða hvort við teljum vegið að æru fólks, eða hvernig það er nú allt saman, þá getur það verið snúið. Ég er ekki sammála því að tjáningarfrelsi heimili okkur að segja hvað sem er við hvern sem er. Ég er ekki þar. Mér finnst það ekki. Mér finnst allt skipta máli. Mér finnst aðstæður skipta máli. Mér finnst skipta máli hvernig við högum okkur hér í þinginu og hvernig við högum okkur á erlendum vettvangi. Við erum t.d. að tala um utanríkisþjónustuna og mér finnst við ekki geta leyft okkur að segja hvað sem er. Skoðanir eru skiptar á því, klárlega. En heilt yfir hvað varðar sannleiksgildi ummæla hlýtur það alltaf að vera þannig að þá erum við væntanlega farin að tala um eitthvað sem stingur á einhverju, tekur á einhverjum og þá þurfum við bara að vega það og meta. Er þetta eingöngu það eða býr eitthvað annað að baki? Og hvaða áhrif hefði það ef tjáningarfrelsið væri algerlega óheft?