150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða það tiltekna mál sem hv. þingmaður nefndi, ég tel það ekki tilhlýðilegt. Það hefur fengið ákveðna umfjöllun sem mér finnst ekki við hæfi að aðrir þingmenn tjái sig um. Það er mín skoðun að gera það ekki og hefur ekkert með þetta tiltekna mál að gera. Mér finnst bara ferlið sem við höfum enn í gildi. Við höfum enn í gildi ákveðið regluverk sem við settum okkur sjálf, þingmenn, og nú erum við að reyna að vinna í því og fá utanaðkomandi aðstoð. Við fengum heimsókn fyrir ekki löngu sem ég held að geti verið til mikils gagns fyrir okkur til þess að hjálpa okkur að finna út úr því hvernig við getum gert þessa hluti enn betur. Brot á siðareglum, hvort sem er þingmanna eða annarra í starfi, getur falist í mörgu og þarf ekki endilega að snúast um orð. En hér erum við kannski að tala um tjáningarfrelsið annars vegar og mannréttindi hins vegar og við þekkjum að það fer ekki alltaf saman alls staðar í heiminum og ekki heldur hér hjá okkur, hefur ekki alltaf gert. Ég tel að við þurfum að fara í gegnum regluverkið og við erum að gera það hér innan húss. En ég ætla ekki að taka afstöðu til þessa tiltekna máls, ég hef ákveðið að gera það ekki. Hv. þingmaður hristir höfuðið yfir því en það er mín ákvörðun að stíga ekki inn í orðræðu sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum og víða og niðurstaða hefur fengist í hér innan húss. Þess vegna finnst mér ekki við hæfi að koma sjálf með aðra niðurstöðu eða hugsanlega sömu hér í pontu Alþingis.