150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þora að gagnrýna eða þora ekki að gagnrýna, það er spurningin. Það er mjög áhugavert að heyra fólk básúna það hversu vel við stöndum okkur erlendis en það þorir síðan ekki að gagnrýna það hvernig okkur gengur hérna innan lands. Það eru mörg atriði sem er áhugavert að skoða í tengslum við mannréttindi innan lands. Ef við horfum inn á við er það grunnurinn að því hvernig við viljum haga okkur út á við, myndi ég gera ráð fyrir, en í störfum mínum sem þingmaður sé ég að það er ekki alltaf satt hjá fólki.

Ef ég leyfi mér að fara yfir nokkur mál sem liggja fyrir þinginu þá er það t.d. valfrjáls bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Hún veitir ákveðið ytra aðhald og snýst um nefnd innan Sameinuðu þjóðanna, svipað og barnaréttarnefndin sem við eigum fulltrúa í. Þessi nefnd tekur fyrir ýmis mál sem koma upp á Íslandi og sendir Íslandi ábendingar um þessi mál en við leyfum ekki fólki að senda mál sín til nefndarinnar til athugunar. Eins og er tekur nefndin upp mál að eigin frumkvæði í rauninni, þær ábendingar sem kannski eru til staðar. Það að samþykkja þessa valfrjálsu bókun um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg eigindi myndi í raun ekki breyta neinu hvað varðar aðkomu nefndarinnar að málefnum á Íslandi. Hún sendir nú þegar til okkar ýmiss konar ábendingar. Það myndi hins vegar leyfa fólki að hafa samskipti á formlegri hátt við þessa nefnd héðan frá Íslandi.

Annað nefndarmál er undirritun og fullgilding þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er líka mál sem liggur fyrir Alþingi. Í þessari nefnd, barnaréttarnefndinni, erum við með fulltrúa, eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fór yfir hérna í ræðu áður. Barnamálaráðherra er sammála því, enda barnamálaráðherra, að börn ættu að hafa þann rétt að sækja mál sín til þessarar barnaréttarnefndar, að sjálfsögðu, hann gæti varla talist barnamálaráðherra eða haldið þeim stimpli ef hann væri á móti því. Þannig að ég skil ekki alveg af hverju málið er ekki bara búið að blússa hér í gegn.

Í þriðja lagi hvað það mál varðar, fulltrúann, og að barnamálaráðherra er sammála þessu, þá er barnasáttmálinn sjálfur í dálitlu limbói hvað varðar starfsreglur um hagsmuni barns, þær eru ekki til. Þegar dómari eða lögmenn flytja mál um umgengni eða forræði barna eru engar starfsreglur sem segja til um það hvað hagsmunir barns þýða, til hvaða þátta á að líta. Þær eru ekki til á Íslandi. Þær eru hins vegar til í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það á að horfa til menntunar og heilbrigðis og allra þeirra atriða sem talin eru upp í barnasáttmálanum. En af því að það er ekki búið að setja þær starfsreglur sem sáttmálinn og almennar athugasemdar um sáttmálann kveða á um, líta dómarar í allri þeirri málsmeðferð sem farið er í til þess að vernda hagsmuni barnsins ekki til þeirra atriða. Það er einfaldlega geðþóttaákvörðun í tengslum við einhvern stöðugleika sem er í barnaverndarlögum, sem er oft notað sem tæki til þess að halda börnum á einum stað frekar en öðrum, til að sýna fram á einhvern stöðugleika. Þar af leiðandi er búið að uppfylla lögin, skyldur dómara til að horfa til þess hvernig hagsmunum barna sé sem best gætt. Það er stöðugleiki að halda þeim á þeim stað sem þau hafa alltaf verið á áður þrátt fyrir að ýmis önnur atriði, sem þyrfti að horfa til samkvæmt barnasáttmálanum, gætu breytt niðurstöðunni. Það vantar starfsreglur um það hvernig á að útskýra faglega hverjir mestu hagsmunir barns eru samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar fáum við einfaldlega falleinkunn enda er, eins og kom fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni, málsmeðferðartími einstaklega langur. Það er mjög óljóst þegar maður spyr hvaða aðferðafræði er notuð varðandi málsmeðferðarreglur, við viðtöl barna o.s.frv., hvort börn séu með fulltrúa sem gætir hagsmuna þeirra. Í forræðisdeilu eru foreldrar, móðir og faðir, með andstæða hagsmuni sem eru ekkert endilega hagsmunir barnsins. Það togast á. Það er enginn fulltrúi barns sem passar upp á að farið sé eftir öllu sem barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem er gríðarlega gott og mikilvægt plagg, kveður á um.

Um daginn vorum við að ræða misræmi atkvæðavægis. Það er grundvöllurinn að lýðræðinu, grundvöllurinn að mannréttindum þegar allt kemur til alls. Samkvæmt leiðbeiningum OECD er talað um að í mesta lagi 10% munur á atkvæðavægi, í allra mesta lagi, sé réttlætanlegur til að vega upp á móti strjálbýlli svæðum upp á ýmsa hagkvæmni að gera hvað varðar kosningar og atkvæðavægi og þess háttar. Við mjög sérstakar aðstæður er 15% atkvæðamisvægi réttlætanlegt til að vega upp á móti stöðu sérstakra minnihlutahópa, frumbyggja og þess háttar. Á Íslandi erum við með 100% misræmi í atkvæðavægi. Það er vert að fara yfir það hvaða áhrif misræmi atkvæðavægis hefur í rauninni á grunnréttindi okkar að vera virkir samfélagsþegnar, vera með lýðræði, sem langt í frá allir búa við. Það er svo sem ýmislegt um það að segja. En við erum alla vega á þessu bili.

Ég rakti áðan í andsvari að við höfum ítrekað tapað málum fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu um tjáningarfrelsi fjölmiðlamanna. Á árunum 2012–2017 voru átta mál, sex sem við töpuðum, sem íslenska ríkið tapaði, og tvö sem stóðu. Það eru greinilega mjög ríkar ástæður til að skoða af hverju það virðist vera gegnumgangandi að mannréttindabrot komist í gegnum íslenskt dómskerfi. Það hlýtur að vera eitthvað í lögunum. Ekki eru dómarar að dæma út frá neinu öðru en lögum. Ef niðurstaðan samkvæmt lögum er mannréttindabrot, brot á tjáningarfrelsi, hlýtur að vera eitthvað að lögunum. En enn er ekki búið að laga neitt.

Annað sem var talað um hérna í umræðunni var mjög áhugavert en það eru sameiginlegar auðlindir, náttúruauður, og þróun þeirra. Það hefur orðið ákveðin vitundarvakning um allan heim tengd loftslagsmálum, um réttindi hvers og eins borgara til að hafa áhrif á þróun og notkun sameiginlegra auðlinda og hafa hag af eða arð af notkun þeirra.

Allt þetta og fleira er að finna í nýrri stjórnarskrá sem íslenska þjóðin kaus árið 2012 að ætti að leggja til grundvallar uppfærðri nýrri stjórnarskrá, sem hefur legið síðan í skúffu og er í skrýtnu ferli um örfá atriði umfram önnur. Vissulega mikilvæg atriði en ég skil ekki af hverju ekki er hægt að klára minna mikilvæg atriði sem enginn ágreiningur virðist vera um. Það væri mjög fljótgert að rúlla því í gegn og þá værum við a.m.k. komin með mjög góðan grunn að öllum þeim breytingum sem fólk var almennt séð mjög sammála um. Það eru nokkur atriði sem eru vissulega pólitískt erfið fyrir suma og það er áhugavert að þau atriði séu alltaf notuð til þess að koma í veg fyrir allar aðrar breytingar þrátt fyrir að allir séu sammála þeim breytingum sem staðið er í vegi fyrir. Mjög skrýtið.

Mér finnst þetta lýsa ástandi mannréttinda á Íslandi eins og það gengur og gerist, hvað sem við segjum á erlendum vettvangi í mannréttindaráði. Eftir á að hyggja verðum við líka að líta inn á við og sjá hvaðan sú gagnrýni kemur sem við höfum fram að færa á erlendum vettvangi og hversu mikið við höfum efni á henni.