150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir í þessari fínu umræðu byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu og í senn frumkvæði að þessari skýrslu og að koma með hana fyrir þingið og svo skýrsluna sjálfa sem er fróðleg en fyrst og fremst, og það sem skiptir kannski meira máli, upplýsandi. Ég ætla að segja það, virðulegur forseti, að mér finnst hún vel upp sett og það er kannski mikilvægast í því efni að draga lærdóm af þessum tímamótum sem seta Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna er fyrir Ísland. Það er sannarlega dýrmætt að eiga rödd á slíkum vettvangi alþjóðamála um leið og það er ánægjulegt, en ekki síst, þegar við horfum á þennan áfanga, að fá vettvang fyrir okkar rödd þannig að áherslur og hornsteinar utanríkisstefnu okkar, til að mynda í mannréttindamálum og í jafnréttismálum fái athygli og aukinn framgang sem er alltaf markmiðið.

Hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir það að það er kannski ekki síst mikilvægt að við lærum af þessu ferli. Það er ágætlega farið yfir það í skýrslunni og sett upp frá aðdragandanum að kjöri, sem var býsna skammur, og svo vinnan sjálf og setan í ráðinu sem er verðmætt fyrir utanríkisþjónustu okkar til framtíðar litið og að geta staðfest það að við erum verðug slíkrar ábyrgðar og getum látið að okkur kveða með afgerandi rödd á sviði alþjóðamála. Við sýndum það, hæstv. utanríkisráðherra fór mjög vel yfir það, mjög vel í málefnum Sádi-Arabíu til að mynda þar sem við leiddum gagnrýni á ástandið í mannréttindamálum kvenna og með ályktun um ástandið í Filippseyjum þar sem við vorum mjög afgerandi, virðulegi forseti, og afdráttarlaus sem ég met vera lykilatriðið, berandi þessa ábyrgð, en um leið er mikilvægt til að koma sjónarmiðum okkar og afstöðu í mannréttindamálum á framfæri. Við gátum látið að okkur kveða enn og frekar í málefnum barna, loftslagsmálum, umhverfismálum og fjöldamörgum öðrum málum. Ráðherrar okkar, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, komu í ræðum sjónarmiðum okkar vel á framfæri og til að mynda ber ályktun okkar um jöfn laun karla og kvenna vott um það. Þannig höfum við haft öfluga aðkomu í gegnum setu okkar í mannréttindaráðinu og höfum getað komið að gildum okkar í alþjóðamálum.

Hæstv. utanríkisráðherra kom inn á vitnisburð þeirra sem hafa tjáð sig um framgöngu eða framsetningu Íslands í tilteknum málum sem ég reifaði hér, og kom fram í máli Íslandsdeildar Amnesty International, Human Rights Watch og í þökkum frá þeim þjóðum sem við beindum áherslum okkar að eins og Sádi-Arabíu og Filippseyjum.

Ég ætlaði ekki, virðulegur forseti, að halda langa ræðu, vildi fyrst og fremst þakka fyrir þetta frumkvæði og umræðuna um skýrsluna. Það er svo áberandi í þessari umræðu hvað við erum þvert á flokka sammála um mikilvægi þess að koma grunngildum okkar, meginsjónarmiðum í mannréttindamálum á framfæri. Það er mjög skýr vilji í þessari umræðu til að við nýtum tækifærin. Í skýrslunni er auðvitað dreginn fram lærdómur og niðurstaða og reifað hvernig við eigum að horfa á slíka þátttöku til framtíðar og jafnframt að Norðurlöndin eigi reglubundið framboð í mannréttindaráði. Ég held að það sé afgerandi vilji til þess að við látum með slíkri þátttöku til okkar taka í mannréttinda-, jafnréttis- og friðarmálum. Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar fyrir þessa skýrslu og þessa fínu umræðu.