150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[16:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fara aðeins ítarlegar út í kostnað og hagnað í þessu máli. Árið 2013 kom út skýrsla frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem var farið yfir þjóðhagslegan kostnað af brotthvarfi nemenda. Það er svo áhugavert að ef við skoðum hvar útgreiddur persónuarður myndi dreifast einna helst er það einmitt til ungs fólks, m.a. á framhaldsskólastiginu, þar sem atvinnuhlutfall er þokkalega hátt, og einnig meðal háskólanemenda. Upphæðin sem myndi greiðast, þ.e. persónuafslátturinn, jafnast nánast á við LÍN-lán þegar viðkomandi býr í heimahúsnæði. Á þeim forsendum gæti viðkomandi algjörlega sloppið við lán og við vinnu með námi sem leiðir alla jafna af sér betri árangur í námi. Fólk klárar hraðar og er ólíklegra til að falla brott úr námi. Þá á eftir að nefna hversu mikill þjóðhagslegur arður er af því að fá fullmenntað fólk út í atvinnulífið fyrr, fólk sem er ekki með skuldir á bakinu.

Samkvæmt skýrslu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var þjóðfélagslegur kostnaður af brottfalli árið 2012 metinn á 52,4 milljarða kr. Hver nemandi í brottfalli kostaði þá um 14 millj. kr. í hvert skipti sem er miklu lægri upphæð en greiðist á ári fyrir persónuafsláttinn þegar allt er tekið til þar. Vissulega er kostnaður upp á 10,5 milljarða miðað við svör fjármálaráðherra við fyrirspurn minni en þarna er miklu stærra samhengi, þótt bara sé horft á brottfallið sem vissulega er verið að reyna að berjast gegn og hefur náðst einhver árangur í líka. Það er hægt að taka allt öðruvísi stefnu en núverandi stjórnvöld eru að gera, t.d. með að mennta þjóð þar sem lagt er til að fella burt hluta af þeim lánum sem voru tekin og fyrir mjög marga nemendur yrði jafnvel ekki þörf að taka lán. Allur sá kostnaður sem fer í gegnum lánin myndi minnka sem og vaxtakostnaður og í rauninni kostnaður ríkisins við að reka lánasjóðinn á þeim forsendum. Þau vanskil sem koma stundum upp þar telja á móti.

Brottfallið telur á móti 10,5 milljarða kostnaði. Það er svo margt sem segir að það að fara í grunnframfærslu sem er ekki tekið tillit til varðandi skerðingar eða neitt sé rosalega jákvætt réttlætisskref og réttindaskref líka að það er eiginlega bara einfalt út frá stærðfræði. Ef við skoðum tölurnar sem við höfum séð í þessu máli væri mjög skrýtið að taka það skref ekki til fulls.