150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[16:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegi forseti. Það er gaman að ræða þessa hugmynd öðru sinni núna í vetur. Við tókum sérstaka umræðu um þetta mál í janúarlok og þar, eins og núna, finnst mér grundvallarspurningin vera hvort aðgerð af þessu tagi yrði til þess að draga úr fátækt, eins og mér finnst skína í gegnum málflutning framsögumanns að sé grunnhugsunin. Ég held að við getum öll sameinast um að það skipti máli.

Þá stendur eftir spurningin hvort þetta sé skilvirkasta leiðin til að útrýma fátækt. Þegar við erum að tala um 11,2 milljarða kr. útgjöld — það er talan sem ráðherra nefndi í umræðunni í janúar — er þetta enginn smáræðisbiti. Þess vegna kemur á óvart eftir umræðuna í janúar að við séum enn með þessa útfærslu sem dreifir peningunum óháð þörf til allra sem ekki fullnýta persónuafsláttinn sinn. Af þessum 11,2 milljörðum á síðasta ári hefðu t.d. 3 milljarðar runnið til 16 og 17 ára einstaklinga. Það fólk er tekjulágt en að sama skapi er það ekki endilega með sömu útgjaldaþörf og þeir sem eldri eru og komnir með fjölskyldu. Það að vera tekjulág á ákveðnu tímabili er nefnilega ekki það sama og að vera fátæk. Ég held að 3 milljarðar til 16 og 17 ára einstaklinga myndu ekki vinna gegn fátækt að neinu ráði.

Eins eru mögulega búnir til hvatar með þessu sem þyrfti að greina áður en til kæmi, t.d. hvati gegn því að hækka grunnlaun lágtekjuhópa. Það myndi ekki bara hafa áhrif á þá hópa sem í eru vel að merkja oftar en ekki konur í yfirgnæfandi meiri hluta, það myndi ekki bara hafa áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra í dag, heldur hafa stigvaxandi áhrif inn í ellina þar sem væntanlega yrði ekki greitt iðgjald af útgreiddum persónuafslætti og þar með yxi bil í réttindum á ellilífeyri. Er það þó nóg fyrir.

Þá myndi þetta líka skekkja stöðu heimavinnandi maka hátekjufólks. Við erum stöðugt að reyna að draga úr hvötum til að fólk hverfi af vinnumarkaði vegna þess að hagræni hvatinn er ekki til staðar. Með frumvarpinu er lagt til að búa til hagræna hvata til þess einmitt að þessir einstaklingar, oftast konur, verði heima frekar en að vera úti á vinnumarkaði.

Við eigum hins vegar kerfi sem gætu alveg notað þessa 11,2 milljarða á skilvirkan hátt þannig að þeir skili sér til fólks sem býr við fátækt. Við eigum t.d. barnabótakerfi sem er löngu gengið sér til húðar og þarf að endurskoða frá grunni til að það komi peningunum í hendur ungs fólks, fjölskyldufólks, fólks sem er í námi og hefur litlar tekjur. Í því sambandi er hægt að benda á skýrslu sem var unnin fyrir BSRB á síðasta ári þar sem barnabótakerfið á Íslandi var borið saman við hin Norðurlöndin og þar kom í ljós að gríðarleg tækifæri eru í því að laga það kerfi. Þótt ekki væri nema broti af þeim 11,2 milljörðum, sem hér er lagt til að dreifa blindandi yfir samfélagið, yrði beint hnitmiðað að hópunum sem mest þurfa á því að halda gætum við einmitt gert þar sem ég held að við hljótum öll að vera sammála um, við gætum útrýmt fátækt. Við gætum tekið þessa 11,2 milljarða og útrýmt fátækt á einu bretti með hnitmiðaðri aðgerð. Ég er bara óskaplega hræddur um að þetta frumvarp sé ekki sú aðgerð. Ef það er raunin, ef það er niðurstaða nefndarinnar sem fær málið nú til meðhöndlunar, getum við nýtt þessa peninga betur en í gegnum það að greiða út persónuafslátt.