150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

höfundalög.

456. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi frá Flokki fólksins um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (mannvirki). Auk mín er Inga Sæland flutningsmaður frumvarpsins.

Í 1. gr. segir:

„Orðin „að því leyti sem það verður talið nauðsynlegt vegna afnota þess eða af tæknilegum ástæðum“ í 1. mgr. 13. gr. laganna falla brott.“

Í 2. gr. segir:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Hönnuður mannvirkis nýtur verndar á hönnun sinni og um þá vernd gilda ákvæði höfundalaga. Þess þarf þó að gæta að ekki sé gengið svo langt í þeirri vernd að réttur eiganda mannvirkis skerðist um of. Núgildandi reglur setja miklar skorður við heimild húseigenda til að gera breytingar á eigin húsnæði. Í 13. gr. höfundalaga er vísað til þess að aðeins sé heimilt að gera breytingar án samþykkis höfundar ef þær eru nauðsynlegar vegna afnota eða af tæknilegum ástæðum. Þegar mannvirki eru hönnuð á hugverkarétturinn að gilda um hönnunina en ekki um mannvirkið sjálft. Það er hægt að virða þann hugverkarétt án þess að takmarka verulega umráðaheimildir eiganda mannvirkis. Hægt er að varðveita myndir, teikningar og tölvugögn um hönnunina og tryggja að þau glatist ekki. Þá er hægt að fylgjast með því að hönnunin sé ekki nýtt í leyfisleysi. Hins vegar er ekki þörf á því að ýmsar kvaðir leggist á það tiltekna mannvirki þegar sú hönnun er nýtt. Ekki er gert að skilyrði þegar tónverk er flutt að aðeins megi flytja það með þeim hljóðfærum sem höfundur þess tilgreinir eða í þeirri tóntegund.

Hér er því lagt til að ekki þurfi lengur að leita samþykkis höfundar ef breyta á mannvirki. Þannig geta eigendur mannvirkja breytt þeim án þess að þurfa að leita samþykkis annarra. Eftir sem áður er vernd höfundaréttarins til staðar, enda er hin upprunalega hönnun enn vernduð. Þannig er slakað á þeim miklu takmörkunum sem lög leggja á umráðarétt eigenda mannvirkja án þess að gengið verði of langt á höfundarétt þeirra sem hanna mannvirkin.

Þarna er lagt til að breyta ákveðnum lögum um mannvirki sem er nauðsynlegt. Það hafa orðið og eru enn að verða deilur um bæði gömul og ný mannvirki út frá því að þau eru hönnuð þannig að notkun þeirra gengur ekki upp. Það á sérstaklega við um þá sem glíma við fötlun. Fötlun er mismunandi og þó að mannvirki séu aðgengileg í einum hópi fatlaðra er alls ekki víst að það henti öðrum hópi. Því þarf að fara bil beggja sem oft og tíðum krefst mikilla heilabrota hönnuða. Það sem skiptir mestu máli er jákvætt hugarfar og þá hefst allt en það dugir ekki til ef lögin segja að höfundur, arkitektinn eða annar geti sagt bara nei. Því miður hefur það oft skeð að þegar um er að ræða einföldun á mannvirki, t.d. sundlaug eða öðru íþróttamannvirki, jafnvel söfnum, hefur valdið deilum og erfiðleikum að fá aðgengi fyrir fatlaða samþykkt sem er nauðsynlegt og líka af öryggisástæðum. Við höfum mannvirki í sundlaugum og annars staðar sem sýna að ákveðin hönnun getur valdið stórslysum. Þegar það uppgötvast að það þarf að breyta viðkomandi hönnun til að koma í veg fyrir slys getur komið upp sú staða að hönnuður mannvirkjanna sem á höfundaréttinn neiti hreinlega þeirri breytingu. Það er bagalegt að staðan skuli vera þannig.

Við verðum líka að átta okkur á því að við hönnun mannvirkja þurfum við að taka tillit til mismunandi fötlunar. Þar koma líka til þeir sem eru sjónskertir eða blindir. Þess vegna þurfum við að vera víðsýn og sjá til þess að þeir sem þurfa og fara fram á að mannvirkjum verði breytt geti breytt öryggisins vegna og líka að sjá til þess að það fólk geti gengið um hvort sem er á heimilum eða í opinberum stofnunum án þess að eiga á hættu að slasast.

Í 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna segir orðrétt um réttindi fatlaðs fólks að aðgengi, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi […] Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til:

a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða.“

Þetta segir okkur hreinlega að þarna er gerð krafa um að þeir sem þurfa á því að halda að breyta húsnæði heima hjá sér eða opinberlega eigi rétt á því að því sé breytt og það hannað eftir þeirra þörfum. Húsnæði á að hanna fyrir fólk en ekki þannig að aðgengi að því valdi skaða eða hefti aðgang. Við erum með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og maður hefur rekið sig á að því miður er í eftirliti með nýbyggingum og almennum aðgangi að mannvirkjum, nýrri hönnun, þar sem hönnunin er rosalega flott, tekið tillit til alls, flottir rampar fyrir hjólastóla, flott aðgengi fyrir fatlaða í hjólastólum og maður hefur varla séð flottari hönnun — en staðreyndin er sú að þegar viðkomandi kemur í hjólastólnum og ætlar að nýta sér þessa frábæru hönnun er það ekki hægt. Hvers vegna skyldi það vera? Vegna þess að það gleymdist að hafa þann fatlaða með og láta hann vera með í úttekt á því hvort hægt væri að nota þessa flottu hönnun. Það hefur komið upp að hönnunin er röng, hæðin og breiddin röng, allt er rangt; rándýr og mjög flott hönnun en virkar ekki. Hvað segir þetta okkur um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og eftirlitsaðilana þar? Þeir mæta en koma þeir með einhvern sem á að nota viðkomandi mannvirki að þessu leyti og láta hann taka það út? Nei, þetta er bara stimplað og samþykkt. Ef það á að breyta þessu, þetta er kannski rándýr hönnun og það á að breyta, getur arkitektinn sagt nei þó að ekki sé hægt að nota þetta. Það sýnir fram á skammsýni okkar og það hversu skrýtin lögin eru að við skulum ekki vera löngu búin að gera eitthvað í þeim málum.

Við getum líka tekið sem dæmi sem við höfum orðið vitni að; fólk hefur keypt eldra húsnæði og ætlar að gera töluverðar og ákveðnar breytingar á því, þetta er bara venjulegt heimili, en arkitektinn segir nei, nema með þvílíkum kostnaði kannski eða bara hann vill hreinlega ekki láta breyta því. Hvað hafa menn þá gert? Þeir hafa bara komið með gröfu og rifið húsið til grunna. Þeir mega það og byggja svo bara nýtt. Hugsið ykkur sóunina, að það skuli þurfa að eyðileggja kannski mannvirki sem er í lagi að mörgu leyti, þarf bara breytingar við, en það þarf eyðileggja alveg ofan í grunn bara til þess að fá það fram sem þarf til að geta nýtt húsnæðið á þann hátt sem viðkomandi eigandi vill gera.

Síðan rekumst við líka á stórfurðulega hönnun í verslunarhúsnæði, það eru kannski tveir inngangar í viðkomandi verslunarhúsnæði, annar er með ramp til að hjólastólar komist inn en hvað skeður þá? Þá er kannski búið að hanna innréttingar fyrir þá hurð og búið að taka aðgengið í burtu. Þeir ganga líka lengra og þetta er samþykkt. Það sem er furðulegt við þetta er að þetta getur verið samþykkt. Síðan kemur maður inn í viðkomandi verslun, þar er salerni sem einstaklingur í hjólastól ætlar að fara á en þá er strikaður hringur um salernið og það er sá hringur sem viðkomandi þarf að geta athafnað sig innan. Þá er maður kominn langt út fyrir alla veggi, langt út fyrir klósettið, og það er vonlaust fyrir þann einstakling að nýta sér aðstöðuna þar.

Þetta sýnir okkur svart á hvítu að við þurfum að breyta þessum lögum. Ég segi fyrir mitt leyti að ég vona heitt og innilega að þingið breyti þessum lögum. Ég segi að þetta sé nauðsynlegt. Við eigum að sjá til þess að hlutirnir virki en því miður er ekkert öryggisnet fyrir aðgengi hreyfihamlaðra hjá byggingarfulltrúum, heilbrigðiseftirliti og eldvarnaeftirlitinu. Það á að sjá um að þetta sé í lagi en svo er ekki. Það er eiginlega það skelfilegasta við þetta, það er eins og vísvitandi og viljandi sé yppt öxlum. Ég held að ástæðan sé sú sem við höfum oft rekist á í sambandi við málefni fatlaðra þar sem þau biðja um „ekkert um okkur án okkar“ að ákvarðanir eru einmitt teknar án aðkomu þeirra. Þau fá ekki að vera með, þau eru ekki spurð og fullheilbrigðir einstaklingar taka aðstöðuna út fyrir fullheilbrigða einstaklinga og gleyma gjörsamlega, hvort sem það er viljandi eða óviljandi, að hafa einstaklingana með eða fara eftir þeim reglum um brunaeftirlit og heilbrigðiseftirlit sem þeir eiga að fara eftir.

Við erum með lög um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og lög er varða aðgengismál. Þau eru skýr, en við verðum líka að spyrja hvers vegna í ósköpunum ekki sé farið eftir þeim. Þetta eru ekki stórvægilegar breytingar. Í 13. gr. höfundalaga segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Nú nýtur mannvirki verndar eftir reglum um byggingarlist, og er eiganda þó allt að einu heimilt að breyta því án samþykkis höfundar, að því leyti sem það verður talið nauðsynlegt vegna afnota þess eða af tæknilegum ástæðum.“

Nauðsynlegt og tæknilegt eru teygjanleg hugtök. Þar af leiðandi er hægt að rífast endalaust um þetta. Tökum þetta út og leyfum breytingar á heimilum og annars staðar sem nauðsynlegt er, sérstaklega ef um slysagildrur er að ræða og heft aðgengi fyrir fólk sem er í hjólastólum, er sjónskert eða hreinlega meitt vegna þess að þetta fólk á fullkomlega rétt á að athafna sig heima hjá sér, líka rétt á því að mannvirki séu hönnuð þannig að þau valdi því hvorki tjóni né hefti aðgengi þess.