150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

höfundalög.

456. mál
[17:36]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir spurninguna. Svarið er: Já, ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur mörgum sinnum, því miður. Við erum í þannig þjóðfélagi að því miður er hönnunin þannig að aðgengi fatlaðs fólks er að stórum hluta hunsað.

Við getum tekið einfalt dæmi um hvernig hlutirnir virka. Við getum horft yfir götuna á húsnæði umboðsmanns Alþingis. Ég veit ekki hvort það er komið aðgengi fyrir fatlaða en það hefur ekki verið. Þar eru miklar tröppur upp. Það er verið að vinna að því, þetta er eldgamalt hús sem nýtur örugglega verndar sem eldgömul bygging eða eitthvað. Svona dæmi eru úti um allan bæ. Þetta eru væg dæmi. Hin dæmin eru mun verri þar sem ekki tekst að breyta þrátt fyrir slysahættu þar sem er sýnt fram á að fólk hefur slasast aftur og aftur. Það veldur deilum við arkitekta og það er það alvarlega í þessu.

Ég kem bara upp vegna þess að ég get ekki annað en hneykslast á því að við skulum geta búið til þetta kerfi. Við gleymum því líka í þessu samhengi að arkitektar hafi ekki bara ævilangt neitunarvald heldur er 70 árum eftir dauða þeirra neitunarvald enn í gildi.