150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

höfundalög.

456. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég tel mig knúinn til að koma upp og fara yfir 43. gr. höfundalaga þar sem stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Höfundaréttur helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Nú er um verk að ræða sem ákvæði 7. gr. taka til og skal þá telja greint 70 ára tímabil frá næstu áramótum eftir lát þess höfundar sem lengst lifir.“

Ef það eru fleiri en einn. Þetta erfist, erfingjarnir geta haldið þessu við. Eins og hv. þingmaður benti á erum við samt með eitt vandamál í þessu samhengi líka. Við erum rosalega dugleg núna við að varðveita gömul hús, torfbæi og aðrar gamlar byggingar. Allar þessar gömlu byggingar eru óaðgengilegar fyrir fatlaða. Þetta stangast á við lög og maður hugsar oft: Bíddu, voru þessi hús hönnuð fyrir fólk eða voru þau hönnuð sem safngripir? Við gleymum alltaf að við verðum að hugsa um að öll mannvirki, húsnæði og annað, eru hönnuð fyrir fólk og eiga að vera öllum aðgengileg. Er þingmaðurinn mér ekki sammála í því?

Ég er eiginlega líka sammála því að höfundar eigi að fá greiðslu fyrir sitt og eigi rétt á hugverkum sínum en þeir eiga ekki að eiga rétt á þeim út yfir gröf og dauða. Þeir eiga heldur ekki rétt á því að koma í veg fyrir nauðsynlegar lagfæringar á þeim þannig að fólk geti nýtt þau og sérstaklega í því samhengi að valda ekki tjóni eða hefta aðgang.