150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

takmarkanir á fjárfestingum í vinnslu jarðefnaeldsneytis.

566. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um takmarkanir á fjárfestingum í vinnslu jarðefnaeldsneytis. Það er oft vandasamt að spá um framtíðina en þó ekki alltaf. Við getum t.d. slegið því föstu að innan ekki svo langs tíma verði búið að skipta jarðefnaeldsneyti, kolum, olíu og gasi, út fyrir græna orkugjafa. Því getum við spáð, ekki bara vegna þess að ríki heims stefna sameiginlega í þá áttina heldur vegna þess að það er eiginlega ekki um annað að ræða ef við viljum stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Á undanförnum árum hefur orðið mjög jákvæð þróun í umræðu um loftslagsmál. Almenningur gerir t.d. ríkar kröfur til stjórnvalda. Það endurspeglast í því að í ársbyrjun kom í ljós í umhverfiskönnun Gallups að 60% aðspurðra eru óánægð með viðleitni stjórnvalda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hér þarf að gera betur. Þessi sami almenningur er líka neytendurnir sem atvinnulífið stólar á.

Viðhorf almennings hefur eðlilega smitast yfir á atvinnulífið og það má sjá með því að rúmlega 100 fyrirtæki og stofnanir hafa skrifað undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar, sameiginlega yfirlýsingu um markvissar aðgerðir í loftslagsmálum. Þá hafa flestir stærri vinnustaðir sett sér stefnu um samfélagslega ábyrgð. Staðreyndin er nefnilega sú frá atvinnulífinu séð að þetta er góður bisness. Ef atvinnulífið ætlar að vera samkeppnishæft til framtíðar þarf það að leggja sívaxandi áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Þannig standa fyrirtæki betur gagnvart neytendum en líka gagnvart starfsfólki sem vill vinna hjá ábyrgum fyrirtækjum og gagnvart stjórnvöldum sem munu á næstu árum óhjákvæmilega þurfa að herða regluverk gegn hvers kyns mengandi starfsemi.

Í dag vil ég með þessari tillögu minni beina sjónum okkar að einum hluta atvinnulífsins sem gæti lagt gríðarþung lóð á vogarskálarnar, fjármálakerfinu. Með tillögunni er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, skipi starfshóp sérfræðinga á sviði sjálfbærni og fjárfestinga sem hafi það hlutverk að skoða og koma með tillögur að útfærslu á banni við fjárfestingum í fyrirtækjum sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis sem eykur losun gróðurhúsalofttegunda. Bannið taki hið minnsta til slíkra fjárfestinga á vegum hins opinbera og lífeyrissjóðanna, en nái eftir atvikum einnig til fjárfestinga annarra fjármálafyrirtækja.

Gert er ráð fyrir að ráðherra hafi nokkuð hraðar hendur og skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshópsins á haustmánuðum 2020 og leggi í kjölfar skýrslunnar fram frumvarp eða nauðsynlegar breytingar eigi síðar en á 151. löggjafarþingi, sem sé því næsta. Ásamt þeim sem hér stendur standa að þessu máli þingmennirnir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Skoðum sérstaklega lífeyrissjóðina, sameiginlega fjöreggið okkar. Eignir þeirra nema í kringum 5.000 milljörðum kr. En hver á þennan pening? Það er einmitt þessi almenningur sem kallar á aðgerðir. Það hvernig lífeyrissjóðirnir fjárfesta hefur ekki einungis áhrif á lífsviðurværi sjóðfélaga, efnahagslega afkomu þeirra þegar þeir ná eftirlaunaaldri, heldur geta ákvarðanir lífeyrissjóðanna um fjárfestingar haft bein áhrif á lífsskilyrði inn í langa framtíð. Samkvæmt þeim lögum sem gilda í dag um lífeyrissjóði eiga þeir m.a. að setja sér siðferðisleg viðmið við mótun fjárfestingarstefnu. Því miður er vilji löggjafans aðeins of óskýr í þeim lagatexta. Það er erfitt að ráða í lagabókstafinn og skjöl málsins þegar það var afgreitt á þingi hvort þar undir félli t.d. að velja fjárfestingar út frá því að þær hafi jákvæð áhrif á loftslagsmál. Einhvern veginn finnst manni sjálfsagt mál eins og málum er háttað í dag að það sé siðferðisleg afstaða að færa fjárfestingar úr iðnaði sem þokar jörðinni í átt til hamfarahlýnunar en sennilega þarf að tiltaka það sérstaklega í lögum.

Enn fremur er eftirlit og yfirsýn stjórnvalda með þessari fjárfestingarstefnu og siðferðislegum viðmiðum lífeyrissjóðanna í miklu skötulíki, líkt og komið hefur fram í svörum tveggja fjármálaráðherra við fyrirspurnum mínum sem gerð er grein fyrir í greinargerð tillögunnar. Gott og vel, en hvað þá með að spyrja bara sjóðina sjálfa? Átak þess efnis var sett í gang á síðasta ári á vegum Landverndar og Öldunnar, félags um sjálfbærni og lýðræði. Skemmst er frá að segja að þau svör sem borist hafa eru oft óljós en benda til þess að erfitt sé að útiloka óbeint eignarhald lífeyrissjóðanna, t.d. í gegnum erlenda verðbréfasjóði. Hér er eitthvað sem hægt er að ná utan um og laga.

Lífeyrissjóðir og önnur fjármálafyrirtæki hafa auðvitað ákveðna arðsemiskröfu en kjarninn í arðsemiskröfu fjárfesta á næstu árum ætti að vera loftslagsmarkmið, ekki bara vegna þess að það er siðferðislega rétt að berjast gegn loftslagsbreytingum heldur líka vegna þess að þannig tryggja þeir betri ávöxtun fjár. Heimurinn þarf að fara í átt til grænnar framtíðar. Fyrirtæki sem eru ekki hluti af þeirri grænu framtíðarsýn munu á endanum leggja upp laupana. Þar eru fyrirtæki sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis skýrasta dæmið um fjárfestingarkosti sem fólk sem fjárfestir til lengri tíma ætti að forðast eins og heitan eldinn.

Það sem næst fram með samþykkt þessarar tillögu minnar er einfaldlega að stjórnvöld styðji við fjármálafyrirtæki um að flýta þeim umskiptum sem óhjákvæmilega verða á fjármálakerfinu á næstu árum og áratugum. Þannig getur íslenska lífeyrissjóðakerfið og helst fjármálakerfið í heild sinni tekið siðferðislega afstöðu með framtíð eigenda sinna og á sama tíma verið með þeim fyrstu sem hella sér af fullum krafti í þær grænu fjárfestingar sem verða drifkraftur atvinnulífsins á næstu árum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari fyrri umr. um tillöguna gangi hún til efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.