150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

frestun fjármálaáætlunar.

[11:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Þegar ræddar eru þær aðgerðir sem grípa þarf til í tengslum við kórónuvírusinn og allt sem honum fylgir, þá ótrúlegu stöðu sem er komin upp eftir fréttir dagsins frá Bandaríkjunum, og með verkstjóra ríkisstjórnarinnar í huga, hæstv. forsætisráðherra, verðum við að minna á að það eru þríþættar aðgerðir sem ríkisstjórnin þarf að grípa til og stýra núna. Í fyrsta lagi er það það sem snýr að óveðrinu sem var í byrjun desember. Þar hefur ríkisstjórnin stigið ágætlega til jarðar með þeim hætti sem þar var gert. Síðan eru aðgerðirnar sem snúa að þessum kórónuvírus núna og kom ríkisstjórnin fram í vikunni og kynnti fyrstu aðgerðir. Síðan er það þriðji aðgerðapakkinn sem felur í sér aðgerðir vegna almennrar kólnunar hagkerfisins sem hefur blasað við síðan seinni hluta síðasta árs að eru algjörlega nauðsynlegar. Ég lýsi yfir miklum áhyggjum hvað það varðar að nú komi fram í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar frá fundinum í ráðherrabústaðnum 10. mars að svo virðist sem sá liður frestist fram undir sumar þar sem segir, með leyfi forseta, í fréttatilkynningunni um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar:

„Áætlunin ætti að óbreyttu að koma fram fyrir 1. apríl en stefnt er að því að leggja hana fram eftir miðjan maí …“

Upphaflega var tilkynnt að línur yrðu lagðar hvað innspýtingu varðar og í þessu samhengi er nauðsynlegt að ýta við ríkisstjórninni, að þessu verði hraðað, hvort sem það er með viðbótarfjáraukalögum eða hver sem aðgerðin verður. Það er ekki hægt að bíða fram undir sumarbyrjun með þetta. Þá eru verktakar og fyrirtæki, Isavia, Vegagerðin, svo dæmi séu tekin, einfaldlega búin að missa af glugganum. Ég vil spyrja um þetta.

Hitt atriðið er sjöunda atriðið í kynningunni í ráðherrabústaðnum þar sem er sagt frá því að innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm bankanna. Átti þetta ekki að gerast hvort sem er, hæstv. forsætisráðherra? Það skiptir máli núna að markaðurinn (Forseti hringir.) og atvinnulífið fái á tilfinninguna að aðgerðirnar sem er verið að kynna hafi raunverulega vigt.