150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

frestun fjármálaáætlunar.

[11:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin sem snúa að framkvæmdaáætlun. Það er mikilvægt að þetta komi fram núna í mánuðinum. Svarið varðandi ÍL-sjóðinn kemur mér nokkuð á óvart, að sú ákvörðun hafi ekki legið fyrir að fjármunirnir gætu ekki legið inni í Seðlabanka, því að í frumvarpi fjármálaráðherra, 381. máli, um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs, sem liggur núna fyrir þinginu segir beinlínis, með leyfi forseta:

„Seðlabankinn hefur tilkynnt að sjóðurinn hafi ekki heimild til þess að halda viðskiptareikningi hjá bankanum frá 1. apríl 2020.“

1. apríl 2020 er bara eftir tæpar þrjár vikur. Ætlaði ríkisstjórnin að stinga þessum peningum undir koddann? Ég held að þetta sé hluti af því sem atvinnulífið og efnahagskerfið kallar eftir að það sé tilfinning fyrir festu og áhrifum og að aðgerðirnar séu raunveruleg viðbrögð, ekki upplistun á hlutum sem eru með einum eða öðrum hætti þegar í gangi.