150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Það verður seint fullþakkað fyrir fumlaus viðbrögð þeirra sem hafa staðið í framlínunni í baráttunni við Covid-19 og það munar líka um að stjórnvöld treysta fagfólki til að meta stöðuna hverju sinni. Þannig hafa ákvarðanir verið teknar með almannahagsmuni að leiðarljósi en ekki með handahófskenndum hætti eins og við sáum því miður dæmi um í Bandaríkjunum í nótt.

Þó að staðan í dag kalli á bráðaaðgerðir þýðir það ekki að við megum missa sjónar á þeim grunngildum sem við viljum standa vörð um. Árin eftir hrun láðist t.d. allt of oft í viðbrögðum að meta áhrif aðgerða á stöðu ólíkra hópa og stöðu kynjanna. Áherslan var meiri á steypu utan um kerfin okkar en fjárfestingu í fólkinu sem heldur kerfinu gangandi. Afleiðingar þessa gætir enn í heilbrigðiskerfinu sem nú mæðir einmitt mest á.

Sama má segja um mikilvægi þess að hafa sem víðtækast samráð. Stundum held ég að Jóhanna Sigurðardóttir, þegar hún var forsætisráðherra, hafi byrjað hvern dag þegar hún opnaði augun á því að hugsa hvern hún ætti að hringja í þann dag, hvern hún þyrfti að tala við. Oftar en ekki voru aðilar vinnumarkaðarins efst á blaði. Þess vegna kom nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar ríkisstjórnin kynnti aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum Covid-19 að ekki skyldi hafa verið rætt við samtök launafólks strax frá fyrstu stundu, kannski sérstaklega vegna þess hversu mikið vinnumarkaðurinn hefur breyst á undanförnum árum. Nú er stór hluti fólks með erlendan bakgrunn og sívaxandi hluti launafólks er ekki í föstu ráðningarsambandi heldur í verktakatengdri vinnu. Þessir hópar kunna hæglega að fara á mis við þau félagslegu úrræði sem kerfið okkar býður upp á.

Hvað aðgerðirnar sjálfar varðar sem ríkisstjórnin kynnti á þriðjudag voru viss vonbrigði að sjá hversu ómótaðar þær voru. Vonandi bætist kjöt utan á beinin á næstu dögum. Sá liður sem kemst næst því að vera fullmótaður og skýr er niðurfelling á gistináttaskatti. Í besta falli er það sýndarmennska sem litlu skilar í þágu ferðaþjónustunnar. Í versta falli eru flokkarnir tveir í ríkisstjórn sem alltaf hafa haft horn í síðu þessa gjalds að nýta tækifærið til að koma því út úr sögunni.

Viðbrögð við tímabundnum hremmingum vegna Covid-19 geta hins vegar nýst til að byggja upp til framtíðar. Aðgerðirnar geta stutt við réttlát og sanngjörn umskipti í þágu loftslagsmála, til að auka jöfnuð, styðja skapandi greinar, (Forseti hringir.) rannsóknir og nýsköpun. Þannig eigum við að mæta miklum áskorunum, alveg eins og við mætum öllum öðrum verkefnum sem við stöndum frammi fyrir hér í sal með því að búa til betra samfélag.