150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:47]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil biðja þingheim allan og þjóðina að fara rúm 11 ár aftur í tímann, til haustsins 2008. Þá voru fallegir haustdagar og Ísland nýbúið að vinna silfur á Ólympíuleikunum, Kaupþing var stærra en Adidas og Carlsberg, a.m.k. á pappírunum. Íslenskt fyrirtæki var fjórða stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims og annað íslenskt fyrirtæki var stærsti framleiðandi ferskra matvæla í Bretlandi.

En svo hrundi allt. Grunnstoðir hagkerfisins hrundu og í raun stoðir alls samfélagsins. Það vill svo til að ég er einn af fáum núverandi þingmönnum sem upplifðu þetta ástand sem þingmaður í þessu húsi á þeim tíma. Ég var formaður viðskiptanefndar Alþingis og varaformaður annars stjórnarflokks þess tíma og því í hringiðunni. Óvissan var algjör hér innan húss sem og utan. Ég man eftir þingflokksfundum þar sem þingmenn bókstaflega grétu. Þjóðin fór að hamstra mat og frystikistur. Sérhver fjölskylda varð fyrir áhrifum af hruninu, bæði efnahagslega og félagslega. Atvinnuleysi þrefaldaðist, verðbólgan fór upp í 18%, gengi krónunnar féll um 50% og 90% af hlutabréfamarkaðnum þurrkuðust út. Samanlagt fall íslensku bankanna þriggja varð þriðja stærsta gjaldþrot sögunnar.

Þetta voru fordæmalausir tímar sem enginn ætlaði að upplifa aftur. Núna stöndum við frammi fyrir mjög erfiðum tíma, en við höfum gert það áður og það fyrir einungis 11 árum. Við eigum að draga lærdóm af því sem við gengum þá í gegnum. Sá lærdómur var okkur mjög kostnaðarsamur og þess vegna er ég að rifja upp þessa sögu.

Herra forseti. Eftir hrun tók við ríkisstjórn sem Samfylkingin leiddi. Flokkur núverandi forsætisráðherra var einnig í þeirri ríkisstjórn. Það var ríkisstjórn sem hafði sterkar félagslegar áherslur á oddinum — ólíkt þeirri sem nú situr. Hér ætla ég að leyfa mér að vera nokkuð krítískur í garð ríkisstjórnarinnar, enda vil ég hvetja hana til góðra verka og benda henni á lausnir. Skoðum níu punkta sem draga fram muninn á því hvernig þáverandi ríkisstjórn tók á erfiðu ástandi og síðan hvernig þessi ríkisstjórn tekur á málum, hefur a.m.k. gert hingað til.

1. Í hruninu fyrir 11 árum lagði ríkisstjórn Samfylkingarinnar fram sérstaka græna fjárfestingaráætlun til að mæta niðursveiflunni. Þessi ríkisstjórn hefur ekki gert það og virðist hún fyrst og fremst enn þá hugsa á mjög gamaldags og karllægum nótum þegar kemur að innviðafjárfestingum.

2. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar setti yfir 100 millj. kr. í barnabætur og vaxtabætur á sínu kjörtímabili. Það er helmingi meira en þessi ríkisstjórn gerir.

3. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar opnaði sérstaklega alla skóla til að mæta auknu atvinnuleysi. Ekkert slíkt sést hjá þessari ríkisstjórn og það þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi nú þegar tvöfaldast síðan þessi ríkisstjórn tók við.

4. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar stórefldi Tækniþróunarsjóð, en þessi ríkisstjórn ákveður að skera framlög til þessa lykilsjóðs niður um 20% á milli ára.

5. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar jók opinbera hlutdeild í fjármálafyrirtækjum, en þessi ríkisstjórn stefnir á að koma fjármálafyrirtækjum úr eigu almennings og til ríkra fjármagnseigenda.

6. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar stórjók veiðileyfagjöld svo hægt væri að fjármagna velferðarkerfið og græna hagkerfið, en þessi ríkisstjórn fer í hina áttina og hefur lækkað veiðileyfagjöld um helming.

7. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar réðst í risavaxið markaðsátak undir formerkjunum Inspired by Iceland, en lítið bólar á sambærilegu átaki hjá þessari ríkisstjórn, a.m.k. enn þá.

8. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar felldi niður virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna til að örva hagkerfið, en þessi ríkisstjórn hefur hingað til svæft slíkt mál sem er nú þegar í nefnd þingsins.

9. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar hlífði eins og kostur var Landspítalanum á miklum niðurskurðartímum, en á vakt þessarar ríkisstjórnar í miðju góðæri hefur ástandinu á bráðamóttöku spítalans verið lýst sem neyðarástandi. Neyðarástand er orð sem starfsfólk spítalans hefur sjálft notað.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þessi atriði er sú að ég vil koma góðum hugmyndum áleiðis til ríkisstjórnarinnar en ég vil líka draga fram að það skiptir máli hverjir stjórna. Það skiptir máli hvað er gert og það skiptir máli hvað er ekki gert. Á svona óvissutímum þurfa þeir sem leiða landið að rísa undir nafni og í hreinskilni sagt finnst mér ríkisstjórnin ekki gera það. Að afnema gistináttagjald upp á 300 kr. á nótt sem hingað til er megintillaga ríkisstjórnarinnar er, með fullri virðingu, ekki neitt sem munar um.

Herra forseti. Mikið finnst mér dapurleg heimssýn formanns Sjálfstæðisflokksins sem birtist í orðum hans frá því í morgun þegar hann segir:

„Þegar svona krísur koma upp er hver sjálfum sér næstur.“ (Forseti hringir.)

Nei, herra forseti. Við komumst upp úr svona krísu einmitt með því að standa saman, vinna saman, taka tillit til annarra og horfa lengra en á eigið nef.