150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ástæðan fyrir að ég nefni þetta sérstaklega er sú, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að þarna er ekki úr miklum fjármunum að spila og full þörf á því að sjóðurinn verði öflugri. Ég þekki þó nokkuð mörg dæmi þess að einstaklingar hafi sótt um í sjóðnum, eins og hæstv. ráðherra nefndi, um varmadælur o.s.frv., og oft á tíðum er svarið það að sjóðurinn sé tómur, það séu ekki til neinir peningar og ekki hægt að verða við styrkbeiðnum. Ég nefni þetta hérna vegna þess að það er þjóðhagslega mjög hagkvæmt að hverfa frá hinni svokölluðu venjubundnu rafhitun. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé í þessu sambandi að hæstv. ráðherra hugi að þeim málum og ekki síst í samhengi við þetta mál. Það er greinilegt að sjóðurinn á að fara að standa straum af víðtækari verkefnum sem er svo sem gott og vel, eins og ég nefndi, hleðslustöðvum o.s.frv., en svo er það sjónarmið að einstaklingar geti treyst því að áfram verði komið til móts við þá sem jafnvel vilja leita að heitu vatni, standa straum af því að bora o.s.frv., allt í því augnamiði að losna undan því að vera með rafhitun sem er dýr og ekki sömu lífsgæði sem henni fylgja og hitaveitunni sem ég nefndi áðan.

Ég vildi bara leggja áherslu á að þetta gleymist ekki í umræðunni um orkuskiptin sem hefur verið lögð töluverð áhersla á og eru nefnd sérstaklega í frumvarpinu.