150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á tímum sem þessum liggur á og marga langar að hlaupa til og laga hlutina þannig að allir hlutir geti haldist áfram gangandi. Það er mjög skiljanlegt sjónarmið og mjög skiljanlegt að vilja fara þangað. En ég velti samt fyrir mér hvort hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir geti upplýst mig um hvort hún þekki fordæmi þess að ráðherra geti með ákvörðun ógilt gildandi lög, geti gefið út heimild til að virða að vettugi gildandi lög og hvaða áhrif það muni hafa á lögmæti þeirra ákvarðana sem sveitarfélögin taka undir slíkum kringumstæðum. Er þetta vald sem ráðherra getur raunverulega fengið með lögum frá Alþingi? Hefur þetta verið skoðað?

Ég vil halda því fram, virðulegi forseti, þegar kemur að réttarríki okkar, sem okkur Pírötum þykir mjög vænt um, að það sé mjög mikilvægt að hafa varann á og gefa ekki of ríkar heimildir til þess að víkja frá reglum sem gjarnan eru notaðar líka til að vernda réttindi minni hlutans í sveitarstjórnum og gæti borið skarðan hlut frá borði verði þetta frumvarp samþykkt. Einnig er ekki í frumvarpinu að finna neitt sólarlagsákvæði þannig að ekki er gert ráð fyrir því að bæta úr þessum lögum og gera þau þannig að þau taki til þeirra þátta sem þarf að taka til, að þau lagi bara það að fundarmenn geti tekið þátt í fjarfundabúnaði ef þörf krefur o.s.frv. í skýrt afmörkuðum tilfellum.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Þekkir hún fordæmi þess að ráðherra geti virkilega ákveðið að fella úr gildi óskilgreindar greinar í gildandi lögum, hvort sem það er tímabundið eða ekki? Hefur það verið metið á nokkurn hátt hvort slík framkvæmd myndi virkilega standast stjórnskipan okkar og standast fyrir dómstólum yrðu ákvarðanir sveitarstjórna dregnar fyrir dóm?